Fara í efni
Mannlíf

Hjólagarpar á Hlíð nældu aftur í silfrið

Þriðja sæti í heimskeppninni! Bogi Þórhallsson, sem hjólaði 2.451,5 km, og Snjólaug Jóhannsdóttir, sem hjólaði 1.363 km. Hjá henni er Tinna Stefánsdóttir, sjúkraþjálfari.

Íbúar á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri urðu í öðru sæti í alþjóðlegri hjólakeppni á milli hjúkrunarheimila sem lauk á dögunum; keppnin nefnist World Road for Seniors og stóð í heilan mánuð. Gaman er að rifja upp að íbúar á Hlíð urðu einnig í öðru sæti í keppninni á síðasta ári.

Í ár voru þátttakendur frá sjö löndum, 222 lið – alls 5.670 manns. „Hjólin voru þétt setin allan mánuðinn, eftir klukkan fjögur og um helgar. 82 einstaklingar lögðu sitt af mörkum fyrir liðið og hjóluðu samtals 10.979,4 km sem varð til þess að þau höfnuðu í 2. sæti!“ segir í tilkynningu á vef Heilsuverndar - hjúkrunarheimila. Vert er að geta þess að á síðasta ári hjóluðu Akureyringarnir nánast sömu vegalengd: 10.500 kílómetra.

Keppendur hjóla um langan veg en fara þó hvergi nema í huganum, því þeir stíga sérstök hjól fyrir framan sjónvarpið þar sem hægt er að horfa á umverfið þar sem „ferðast“ er.

Af þeim 82 sem tóku þátt á Hlíð hjóluðu átta yfir 100 km. Elst þeirra er Aðalheiður Einarsdóttir sem varð 98 ára í febrúar síðastliðnum, hún hjólaði 116 km og var að taka þátt í keppninni í fimmta sinn. Hlíð átti fimm keppendur af þeim 11 fyrstu í þessum 5.670 manna hópi og fjórir þeirra hjóluðu yfir 1.000 km. Tveir keppendur enduðu í 3. sæti: Snjólaug Jóhannsdóttir sem fór 1.363 km og Bogi Þórhallsson sem hjólaði 2451,5 km.

„Metnaðurinn, krafturinn, gleðin og sprellið sem var við lýði allan tímann varð til þess að þessum góða árangri var náð, en einnig sú mikla hvatning sem keppendur fengu frá starfsfólki í sjúkraþjálfun sem stóðu eins og klettar á hliðarlínunni og hvöttu fólk af miklum krafti. Við óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur, gott silfur, gulli betra á svo sannarlega vel við,“ segir á vef Heilsuverndar - hjúkrunarheimila.

Bogi Þórhallsson hjólaði 2.451,5 km og varð í 3. sæti í keppni karla á heimsvísu.

Snjólaug Jóhannsdóttir hjólaði 1.363 km og varð í 3. sæti í kvennakeppni heimsmótsins. Hér er hún með Tinnu Stefánsdóttur sjúkraþjálfara.

Aðalheiður Einarsdóttir sem varð 98 ára í febrúar síðastliðnum og hjólaði 116 km.

Petrea Gunnarsdóttir hjólaði 1.188,5 km og hafnaði í 8. sæti.

Árný Björnsdóttir hjólaði 1.163,5 km og hafnaði í 8. sæti.

Ute Helma Stelly hjólaði 944,4 km og hafnaði í 11. sæti.

Árni Þorsteinsson hjólaði 801,8 km.

Svavar Sverrisson

Magnús Björnsson og Þórunn Sigurbjörnsdóttir

Helga Jónsdóttir

Ingunn Kristjánsdóttir og Auður Þórhallsdóttir

Margrét Magnúsdóttir

Sigurjón Gunnlaugsson

Ásdís Jóhannesdóttir

Lína Björk Stefánsdóttir sjúkraliði, lengst til vinstri, og sjúkraþjálfararnir Tinna Stefánsdóttir og Christina Finke.