Hjólaferð í Laugafell sumarið 2021
Mér þykir býsna gaman að lesa ferðasögur og þá sérstaklega sögur af ferðum um fjöll og óbyggðir Íslands. Er þá ekki upplagt, að deila einni slíkri með lesendum ...
Hjólreiðar hafa löngum verið minn helsti samgöngumáti. Hvers vegna ég á ekki bíl, og hef aldrei átt, á sér svosem enga rökrétta skýringu, hefur kannski einna helst með nægjusemi í bland við sérvisku að gera. Ekki er ég andstæðingur einkabílsins nema síður sé og ekki dettur mér í hug, að allir geti tileinkað sér hjólreiðar. Lengst af voru hjólreiðarnar bundnar við sumartímann og þéttbýlismörk Akureyrar en um 2018 fór ég að leggja í vana minn, að hjóla áleiðis að Hrafnagili og prófaði svo alltaf lengri og lengri leiðir, áleiðis fram í fjörð. Það var síðan 29. ágúst 2020, að ég hjólaði að Halldórsstöðum, öðrum fremsta bæ Eyjafjarðarsveitar, 45 km framan Akureyrar og horfði fram Eyjafjarðardalinn: Næsta sumar skal það verða Laugafell! Á svipuðum tíma fékk minn sérlegi hjólafélagi, Árni Már Árnason, sömu hugmynd og veturinn 2020-21 ræddum við þetta fram og til baka, spáðum og spekúleruðum: Við skyldum sko fara, þrátt fyrir úrtöluraddir, en margir hváðu og töldu þetta óðs manns æði hjá okkur, að ekki sé minnst á þann ójafna leik, að annar okkar var á rafmagnshjóli en hinn ekki. En við skyldum fara!
Klukkan 10, þann 11. ágúst 2021, lögðum við félagarnar af stað frá Leirunesti. Heiðskírt var og sólskin og einhver hitamælir sýndi 21 stig. Ferðin gekk tíðindalaust framan af, við gættum þess að fara ekki of hratt til þess að eiga næga orku inni. Við stoppuðum við Botnsreit, við brúna yfir Djúpadalsá, tókum myndir og supum af vatnsflöskum en við urðum ansi þyrstir í sólinni. Um hádegisbilið áðum við undir suðurvegg Saurbæjarkirkju og Árni fékk að hlaða rafhlöðuna sína á Smámunasafninu. Hann var nefnilega á rafmagnshjóli en ekki ég. Ójafn leikur, en það tafl átti nú eftir að snúast laglega við þann daginn! Eftir málsverð héldum við áfram, hægt og sígandi. Fylltum á vatnsflöskur við svonefnt Klif, norðan við Leyningshóla. Um hálf þrjúleytið fórum við framhjá Hólsgerði, fremsta byggða bóli í Eyjafirði. Þá vissum við, að við vorum hálfnaðir með vegalengdina. En hvað varðar ferðatíma upp að Laugafelli, vorum við rétt að byrja!
Kaffihlé tókum við í skógarjaðri við eyðibýlið Úlfa, sem er um 1,5 km sunnan Hólsgerðis. Það eru mjög skörp skil á gæðum vegar við Hólsgerði, þegar komið var suður undir bæjarhólinn er vegurinn stórgrýttur og á mörgum stöðum renna þar lækir yfir. Nú þurfti ég að leiða hjólið, afturendinn orðinn nokkuð aumur eftir 5-6 klukkustunda samfellda setu og þungur bakpokinn seig verulega í, svo ég réð orðið ekkert við minnstu brekkur. Ekki leist mér á blikuna, miðað við þá vegalengd og hækkun sem eftir var. En hvað um það; kröftum myndi ég safna við næsta stopp. Á þessum kafla er hækkunin ekki mjög skörp og skástu metrar vegarins slaga jafnvel hátt í gæði sæmilegra malarvega. Okkur þótti sláandi líkindi með Eyjafjarðardalsslóðanum og efsta hluta Fálkafellsvegar, en við erum báðir skátar og höfum farið þangað ófáar ferðirnar. Við svonefndan Brúsahvamm, um 10 kílómetra frá Hólsgerði er há og brött brekka þar sem vegurinn sveigir undir og fyrir brekkubrún mikla. Efst í þeirri brekku, ákváðum við að taka okkur annað nestisstopp, gæddum okkur m.a. á normalbrauði með rúllupylsu, kaffi, safa og kexi. Þá rann upp fyrir okkur skelfileg staðreynd!
Árni hafði verið við öllu búinn, hafði meðferðis auka rafhlöðu, fullhlaðna. Eftir 55 kílómetra vegalengd og tæplega 500 metra hækkun var hleðslan nokkurn veginn búin og hugðist hann skipta um. En það var alveg sama hversu gramsað var í bakpoka, enginn fannst lykillinn, sem nauðsynlegur er til að skipta um rafhlöðu. HANN HAFÐI GLEYMST! Nú voru góð ráð dýr. Það er ekkert grín að rogast með straumlaust rafmagnshjól og hvað þá upp bratta fjallvegi. Ég man ekki hvort við ræddum um að snúa við, en það var þá ekki lengi, því við ákváðum nánast samstundis að halda áfram. Þar gilti einfalt reikningsdæmi: Það voru 55 kílómetrar heim og 30 kílómetrar í Laugafell. Og svo vorum við búnir að borga fyrir gistinguna. Það var þó ljóst, að við myndum þurfa að leiða hjólin töluverðan hluta leiðarinnar. Leið, sem jafngilti ríflega tvöfaldri vegalengdinni milli Akureyrar og Hrafnagils. Að ekki sé minnst á, að á leiðinni yrðum við að hækka okkur hátt í hæð Súlutinda. En áfram var haldið, löturhægt. Klukkan var hálfsjö og sólin farin að lækka í vestri. Ægifagurri gulleitri birtu sló austurhlíðar Eyjafjarðardals og áin ótrúlega tær og blá með bláum hyljum í bland við flúðir. Það eina sem skyggði á, var óskapa mývargur við lygnu hyljina! Við drukkum kynstrin öll af vatni, en þarna lá við, að við gætum teygt okkur með flöskurnar út frá vegslóðanum og fyllt á, enda brekkurnar undirlagðar uppsprettum og litlum bunulækjum, sumir eins og skrúfað væri frá litlum krönum inn í brekkunni. Kvöldverð; kaldar kótilettur og brauð, snæddum við skammt frá vaðinu, þar sem vegurinn hlykkjast upp veggbratta hlíðina upp á hálendisbrúnina, allt upp í tæplega 1000 metra hæð.
Eyjafjarðarleið liggur yfir ána á vaði efst á dalnum. Er hann þar svo þröngur, að nær væri að tala um gljúfur frekar en dal. Þangað náðum við rétt fyrir klukkan níu. Það var útséð, að við næðum í skálann fyrir myrkur. Við vorum tæpar tvær klukkustundir að klífa hrygginn háa, sem ég veit því miður ekki hvað heitir, en man eftir að hafa séð nafnið Runu á korti nálægt þessum slóðum. Í svona ferðum er auðvitað upplagt að nýta björtu nætur sumarsins. Eyjafjarðarleið, hins vegar, er þeim ósköpum gædd að hún opnast yfirleitt ekki fyrr en eftir miðjan júlí, þegar fáir albjartir sólarhringar eru eftir af sumrinu. En hins vegar var óviðjafnanlegt að fylgjast með sólinni setjast yfir hálendinu í vestri og varpa gylltri birtu yfir Eyjafjarðardalinn, á meðan við paufuðumst upp hlykkjótta leiðina. Við vorum enn að hækka okkur þegar fór að rökkva verulega.
Myrkrið var dálítið sérstakt; alltaf sáum við roða við sjóndeildarhringinn í vestri og greindum alltaf næstu fáeinu metra en sáum aldrei lengra frá okkur en það. Við tókum aðeins eina sandöldu fyrir í einu. Stundum var hægt að láta sig renna og ná góðri ferð niður þá tók önnur brekka við, upp í mót. Vegurinn þarna var sannkölluð hátíð í samanburði við stórgrýtisurðina á Eyjafjarðardalnum, nema hvað stundum lentum við í grunnum sandsköflum. Einhvern tíma sáum við útlínur stöðuvatns en engin leið að átta sig á, hvort það væri við vegbrúnina eða langt í burtu. Þetta var algjörlega óborganlegt, fjarlægðarskynjunin rugluð og þögnin algjör. Stundum þóttist ég heyri í fuglum í sandinum en það var þá í raun hjólið að strjúkast við vegkantinn. Og lognið svo algjört, að hægt var að láta loga á eldspýtu. Og það var svo hlýtt, að þetta var í raun svipað því að vera innandyra. En þess má geta, að sumarið 2021 var eitt það hlýjasta og sólríkasta í manna minnum og þarna hafði verið samfelld hitabylgja yfir Norðurlandi í rúman mánuð! Af og til duttum við í símasamband og vorum þá í sambandi við skálavörð í Laugafelli. Klukkan var þarna komin yfir miðnætti og 14 klukkustundir liðnar frá því við lögðum af stað frá Leirunesti. Við fullvissuðum Laugfellinga um, að ekkert amaði að okkur en ef mögulegt væri, myndum við þiggja að vera sóttir. Sem var ekki hægt. Og áfram héldum við „inn í eyðimerkurnóttina“ eins og segir í söngtexta Helga Björns. Mikið óskaplega var þetta allt saman magnað, töfrandi og dásamlegt en mikið ansi sem þetta var langt! Sandalda eftir sandöldu, upp og niður, niður og upp. Ég var alltaf töluvert á undan Árna, sem átti fullt í fangi með sitt straumlausa hjól, en ég stóðst ekki freistinguna að láta mig renna þar sem það var hægt. Yfirleitt stansaði ég og beið uns ég sá ljósið frá Árna. Eitt var það sem hrjáði okkur umfram annað á þessum áfanga leiðarinnar: Við vorum vatnslausir! Á dalnum gátum við bókstaflega gengið að rennandi vatni í næstu brekku en hér voru engar lindir. Það er ótrúlegt hvað 16 klukkustunda gamalt, kalt kaffi og óblandað djúsþykkni geta verið svalandi við þessar aðstæður!
Loksins, loksins (!) sáum við glitta í vegprestinn á bognu stönginni þar sem stendur m.a. Laugafell 4 og Eyjafjörður 37[km]. Armbandsúrið sýndi 2.36. Á slaginu þrjú um nóttina sáum við loks móta fyrir skálunum fjórum í Laugafelli. Þá voru liðnar 17 klukkustundir frá því við lögðum af stað og 12 klukkustundir frá því við fórum framhjá Hólsgerði, ríflega hálfnaðir með vegalengdina. Við áttum pantaða gistingu á svefnlofti snyrtihússins og vorum við einir um hituna. Sjaldan hefur verið jafn notalegt að skríða ofan í svefnpokann!
Nú förum við hratt yfir sögu. Staðið hafði til, að halda aftur til byggða daginn eftir, en ljóst að það næðist ekki. Í fyrsta lagi tókst okkur að sofa eins og unglingar langt fram undir hádegi, enda vonlegt þar sem ekki var farið að sofa fyrr en um fjögurleytið. Í öðru lagi þurfti að hlaða rafhjólið en það var háð því, að tækist að koma bensínrafstöð af stað. Sem tókst. Hins vegar tæki það fimm til sex tíma að fullhlaða hjólið. Svo við urðum að dvelja aðra nótt. Ekki hefðum við fyrir nokkurn mun viljað missa af þeim dýrðardegi. Við slökuðum á, tókum í spil, fórum í laugina, slökuðum svo aðeins meira á, spiluðum meira og fórum svo aftur í laugina. Fórum í léttan göngutúr um næsta nágrenni skálans, skoðuðum m.a. Þórunnarlaug. Veðrið var með besta móti. Við hugsuðum þá hugsun einfaldlega ekki til enda hvað hefði gerst, hefði Árni ekki getað hlaðið hjólið þarna.
Við lögðum af stað hálfníu morguninn eftir. Það var gaman að virða fyrir sér þann hluta leiðarinnar í sólskini og heiðríkju, sem hulinn var myrkri á uppleiðinni. Og gaman að láta sig renna niður í Eyjafjarðardal og niður að vaði; við vorum 15 mínútur sömu leið og tók okkur tvo klukkutíma á uppleiðinni! Það var líka sérstakt, að finnast maður vera „rétt ókominn“ heim við Hólsgerði, og mikill léttir að vera kominn til byggða. Um 10 kílómetra frá Laugafelli hafði ég farið að heyra eitthvert sarg úr pedalahúsinu sem ágerðist mjög. Vissi ég ekkert af hverju þetta stafaði en hvimleitt var þetta. Hugkvæmdist mér að hella smurolíu inn fyrir og lagaðist þetta eitthvað. Reyndi lítt á þetta niður að byggð, því lítið þurfti að stíga. Þegar komið var svo að segja á jafnsléttu sagði þetta til sín, hjólið var ægilega þungstigið og breytti þá engu í hvaða gír ég var, svo mesti hraði sem ég náði var um 18-20. Þá gengu pedalarnir einhvern veginn til hliðanna, líkt og þeir ætluðu af, svo maður þurfti að stíga þá inn og út. Það kom svo í ljós, að lega hafði farið og líklega bara tilviljun að þeir duttu ekki af! En ferðin sóttist fyrir vikið agalega seint. Við komum að Smámunasafninu í Sólgarði um fjögurleytið og fengum okkur vöfflur með rjóma og skoðuðum safnið í rólegheitunum en Árni fékk að bæta þar straum á rafhlöðuna. Lögðum við af stað aftur um fimmleytið eða um það leyti, sem safninu var lokað. Vegna pedalavandræða og rasssæris sóttist mér ferðin afar seint á meðan Árni geystist áfram á rafmagninu. Hafði þessu einmitt verið öfugt farið síðari hluta uppleiðar. Það er dálítið gaman hvernig heildarlengd ferðar breytir vegalengdarskyninu. Við Grund, rúma 20 kílómetra frá Akureyri, var ég orðinn verulega framlágur en hugsaði með mér, að þetta færi nú alveg að hafast! Vissi af miklum brekkum á næstu kílómetrum þar sem ég gæti náð góðri ferð niður en viti menn - kvöldgolan sem blés á móti eyðilagði það að mestu leyti. Síðustu 15 kílómetrana, framhjá Hrafnagili og áleiðis í bæinn gat ég orðið ekki stigið nema nokkur hundruð metra í einu án þess að taka stuttar pásur. En þetta hafðist.
Við afleggjarann að Kjarnaskógi skildu leiðir okkar Árna í þessari mögnuðu ferð, hann hélt heim upp á Brekku, en ég áleiðis eftir Drottningarbrautarstígnum heim á Oddeyrina. Og þangað náði ég klukkan hálfníu. Heimferðin tók þannig 12 klukkustundir. Enda þótt þessi frásögn virðist lítið annað en upptalning á hrakföllum og erfiðismunum er það nú svo, að þetta var með því skemmtilegra og ævintýralegra, sem ég hef reynt.
Kominn til byggða! Arnór Bliki staddur sunnan við Hólsgerði, fremsta byggða ból í Eyjafirði á heimleið úr Laugafelli 13. ágúst 2021. Þess má geta, að hjólinu á myndinni skipti hann út í apríl sl. fyrir Cube, fulldempað rafhjól. Mynd: Árni Már Árnason