Fara í efni
Mannlíf

Hittast í Sölku og prjóna eins og vindurinn

Guðlaug Erlendsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir mættar í prjónaklúbb í Sölku. Guðlaug er blind, en lætur það alls ekki stoppa sig í handavinnunni. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Það eru tveir prjónahópar í Sölku, félagsmiðstöð fólksins í Víðilundi. Þar er opin vinnustofa í handavinnu á þriðjudögum og fimmtudögum á milli 9-12, og þar er ætíð vel mætt. Í gær birtum við umfjöllun um annan prjónahópinn, og hér kynnumst við svo hinum. Bæði eru konurnar sem mæta að vinna að eigin sköpun og taka þátt í góðgerðarverkefnum sem eru sífellt á dagskrá, til dæmis að prjóna fatnað fyrir Rauða krossinn, sjúkrabílabangsa og fleira.

Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku.


„Ég flakka svolítið á milli prjónahópana, ég er svo afskiptasöm,“ segir Oddný Ragnheiður Kristjánsdóttir sem er gjarnan kölluð Ragga. Hinar hlæja og benda á að það kallist nú kannski ekki afskiptasemi, vegna þess að Ragga er sérfræðingur í handavinnu og hinar konurnar nýta sér það óspart. Það er augljóslega mikil hefð fyrir því, í báðum prjónaklúbbunum, að hjálpast að með verkefnin og gera hlutina saman.

 

Ragga tekur að sér að svara fyrir hópinn, en hún er fagmanneskja fram í fingurgóma, enda fyrrum handavinnukennari á Stórutjörnum. Mynd: RH

Ragga prjónaði þessa forláta vettlinga úr erlendri minkaull. Lesendur geta því miður ekki eignast þá, þar sem blaðamaður var ekki lengi að verða ástfangin af þeim og kaupa þá af Röggu. Mynd: RH

Allir hjálpast að í prjónahópnum

„Ég kem yfirleitt alla daga sem handavinnuhópurinn er í gangi,“ segir Ragga. „Ég var að kenna handavinnu áður fyrr í Stórutjarnarskóla og alltaf tilbúin að koma til hjálpar ef þess er þörf.“ Ung kona frá Grænlandi er með í prjónahópnum í dag og er byrjuð á þriðju peysunni sinni, en hún segir að hinar tvær hafi verið sendar sem gjafir heim til Grænlands handa litlum frænkum.

Guðlaug Erlendsdóttir er með stærðarinnar teppi í vinnslu, en hjá henni situr Helga Gunnlaugsdóttir og bendir blaðamanni á að Guðlaug sé blind. Það er ótrúlegt hvað hún afkastar miklu, en hún segist hafa verið blind í tvö ár og lengi áður með skerta sjón. Hún er samt hvergi af baki dottin með handavinnuna og nýtur þess mikið að koma í prjónahópinn og taka þátt.

 

Guðlaug er brosmild með prjónana og hún er langt komin með þetta fallega og sumarlega teppi, þrátt fyrir að vera blind. Mynd: RH

Ólöf Eir Guðmundsdóttir og Laufey Björg Gísladóttir eru mættar í prjónaklúbbinn og láta ekki sitt eftir liggja. Mynd: RH

Kynnast nýju fólki í prjónahópnum

„Maður kynnist nýju fólki hérna,“ segir Ragga. „Fólki sem maður hefði annars ekki kynnst. Mörg sem koma hingað eru kannski farin að búa ein og það er dýrmætt að mæta í félagsstarfið í Sölku.“ Ein í hópnum skýtur inn í að það sé líka svo gott fólk á staðnum sem leiðbeinir og segir til ef þarf. Bergþóra Jóhannsdóttir starfar hjá félagsmiðstöðinni er iðulega til taks í saumastofuni, tilbúin til þess að hjálpa hverjum sem vill. 

Í prjónahópinn í dag eru mættar auk Röggu; Kristín Sigurðardóttir, Guðlaug Erlendsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir, Ólöf Eir Guðmundsdóttir og Laufey Björg Gísladóttir.

 

Bergþóra Jóhannsdóttir stendur vaktina í saumastofunni og er handavinnufólki til halds og trausts. Mynd: RH


Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku. Fyrri umfjallanir: