Hiti gæti orðið allt að 20 stigum í dag
Rjómablíða var á Akureyri og nágrenni í gær, sól og örlítill andvari úr norðri, og hið sama verður upp á teningnum í dag. Jafnvel enn hlýrra, því talið er að hitinn geti náð allt að 20 stigum.
Eftir hinn stutta, snarpa vetur í síðustu viku virðist veðurguðinn hafa áttað sig á að ekki var allt með felldu og ákveðið að bæta úr – en reyndar aðeins tímabundið. Veðrið verður gott á morgun, 10 til 17 stig og eitthvað sést til sólar en hitinn lækkar á laugardag og þá eru ekki miklar líkur á sólskini.
Á sunnudag er ólíklegt að hiti nái tveggja stafa tölu og sólin verður líklega upptekin annars staðar en virðist ætla að snúa heim á ný á mánudag, þjóðhátíðardaginn. Hitatölur verða að vísu ekki háar, skríða hugsanlega upp í tveggja stafa tölu, en fólk ætti þrátt fyrir það að geta haft það notalegt á hátíðarhöldunum, vegna sólarinnar.