Fara í efni
Fréttir

Hildur Eir: sorgin er guðmóðir gleðinnar

Séra Hildur Eir Bolladóttir flutti afar áhrifaríka prédikun um sorgina í Akureyrarkirkju í morgun, á allraheilagramessu sem er í dag.

Fyrsti sunnudagur í nóvember mánuði er sérstaklega helgaður minningu látinna í evangelískri lútherskri kirkju „og er það mjög fallegt, merkingarbært og mikilvægt. Um leið og við hugsum til látinna ástvina og samferðarfólks er eðlilegt að sorgin láti á sér bæra, hún er jú gjaldið sem við greiðum fyrir að eiga ástvini og náin tengsl við dauðlegar verur,“ sagði Hildur. „Sú manneskja sem kysi að vera alfarið laus undan sársauka sorgarinnar þyrfti jafnframt að velja að eiga alls engin tengsl við menn og dýr á ævigöngu sinni. Það sem meira er, hún þyrfti líka að velja að eiga engin tengsl við sjálfa sig því rétt eins og við syrgjum horfna ástvini getum við líka syrgt okkur sjálf, til að mynda þegar sjúkdómar herja á og breyta okkur, breyta framtíðarplönum okkar og væntingum. Að þessu sögðu má sjá að það er eiginlega óhugsandi að fara í gegnum heila eða hálfa mannsævi án þess að leggjast undir rökkurhiminn sorgarinnar,“ sagði hún meðal annars.

Smellið hér til að lesa þessa fallegu prédikun séra Hildar Eirar.