Hildur Eir: Mér þykir vænt um þennan mánuð
Nú er bleikur mánuður genginn í garð. Þessi mynd er þriggja ára gömul og þarna er ég einmitt við það að klára lyfjameðferð eftir krabbamein í meltingarfærum og lifur. Mér þykir vænt um þennan mánuð og samstöðuna í mannlífinu, samkennd er manneskjunni eiginleg, því megum við aldrei gleyma þótt lífið sé stundum kalt og sárt.
Þannig hefst pistill Hildar Eirar Bolladóttur, sóknarprests í Akureyrarkirkju, sem Akureyri.net birtir í dag.
Hildur segir einnig meðal annars:
Krabbamein eru margir sjúkdómar og hver einstaklingur sem greinist er að heyja baráttu sem enginn annar hefur háð, einfaldlega vegna þess að við erum hvert og eitt einstök að gerð. Þannig að þó gott sé að spegla sig í reynslu annarra þá er líka mikilvægt að ganga þessa göngu með sínum eigin skapandi huga og finna bjargráð sem maður kann fyrir. Til dæmis hreyfa sig, hlusta á tónlist, vera með fólkinu sínu, ástunda kolsvartan húmor, hvíla í helgihaldi kirkjunnar, fara á gott uppistand og í leikhús, vinna handavinnu, skrifa ljóð, baka köku, fara í bíltúr, skoða haustlitina.
- Í dag, þriðjudaginn, 1. október hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, Bleika slaufan. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að aðstandendum undir slagorðinu Þú breytir öllu. „Við viljum þakka þeim sem hvorki búast við né ætlast til að fá þakkir, fólkinu sem er svo mikilvægt en á það til það að gleymast – aðstandendum,“ segir á vef félagsins.
Smellið hér til að lesa pistil Hildar Eirar Bolladóttur