Hér rís önnur heilsugæslustöð
Það er ekkert launungamál að margir Akureyringar hafa lengi verið án heimilislæknis og má rekja þá staðreynd mörg ár aftur í tímann. Bið eftir tíma hjá heimilislæknum er í dag yfirleitt mjög löng og í sumum tilfellum nær fólk ekki að fá tíma sem verður til þess að álag eykst á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Tel ég það eitt af okkar forgangsmálum að ráða bót þar á. Rannsóknir hafa sýnt hversu mikilvægt það er að allir hafi fastan heimilislækni um lengri tíma auk þess sem sýnt hefur verið fram á að það minnki einnig marktækt vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu.
Þegar sagan er skoðuð er athyglisvert að sjá að á Akureyri hefur aldrei verið byggð heilsugæsla frá grunni heldur hefur heilsugæslu verið komið fyrir í eldra húsnæði, sbr. í gamla Amarohúsinu og nú í Sunnuhlíð. En það er ekki þar með sagt að ekki geti vel tekist til eins og ný og glæsileg heilsugæslustöð sem var opnuð á þriðjudaginn sl. ber gott vitni um og er mikið fagnaðarefni fyrir íbúa svæðisins.
Á Akureyri þarf tvær heilsugæslustöðvar
Fyrir fimm árum var gerð ítarleg úttekt á svæðinu sem leiddi í ljós að bærinn þyrfti tvær heilsugæslustöðvar. Þörfin í dag er brýnni ef eitthvað er þar sem íbúum svæðisins hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Yfir 20.000 manns eru skráðir á heilsugæslustöðina í Sunnuhlíð sem er töluvert meiri fjöldi en gengur og gerist í höfuðborginni. Heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að rýna þurfi hvernig stöðin í Sunnuhlíð muni nýtast og hvar þurfi svo að bæta í. En fyrirætlanir um aðra heilsugæslustöð hafi ekkert breyst á þessum tímapunkti.
Ríkiskaup fh. Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna og Heilbrigðisráðuneytið hafa auglýst eftir aðilum til að hanna og byggja nýja heilsugæslu, í tvígang. Því miður skiluðu tilraunirnar ekki tilætluðum árangri þar sem enginn aðili sá sér fært um að taka þátt.
Vangaveltur um hvort hin heilsugæslustöðin verður ríkis- eða einkarekin er síðan framtíðarmúsík sem verður að koma í ljós með tíð og tíma. Þar þarf áfram að horfa til þarfa samfélagsins, fyrst og fremst snýst þetta um að þjónusta íbúana sem hér eru. Það má aldrei gleymast að heilbrigðisþjónusta þarf fyrst og fremst að snúast um fólkið okkar sem þangað leitar.
Að lokum get ég svo ekki annað gert en að benda á að góðir stjórnmálamenn kynna sér málin vandlega áður en þeir fara að básúna illa ígrundaðar ályktanir. Það er að mínu mati algjört lágmark að vera með allar staðreyndir á hreinu áður en maður setur fram fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast.
Við munum byggja aðra heilsugæslustöð, þau áform hafa ekki breyst!
Ingibjörg Isaksen er þingflokksformaður Framsóknar