Fara í efni
Menning

Heldur rödd og hugsjón vinkonu sinnar á lífi

Kateryna Ilchenko, Kate. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Rödd, sem fær ekki að hljóma aftur er samt stjarna, sem mun aldrei dofna.

Kateryna Ilchenko, 'Kate', 22 ára gömul listakona frá Úkraínu, er í óða önn að hengja upp myndir eftir vinkonu sína í Deiglunni, þegar blaðamaður Akureyri.net heimsækir hana þangað. Vinkonan, Veronika Kozhushko, kölluð Nika, var bara 18 ára þegar sprengjubrot frá rússneskri loftárás á heimaborgina hennar, Kharkiv, endaði líf hennar snögglega síðastliðið sumar.

 

Skjáskot úr myndbandi Niku, sem hún setti á samfélagsmiðla tveimur dögum áður en hún dó. Myndbandið verður hægt að horfa á á sýningunni.

Listaverk Niku eru nákvæmar og lifandi teikningar þar sem mennska og tilfinningar flæða. Mynd: RH

Vildi halda röddum annarra listamanna á lífi

Nika var baráttukona sem notaði listina til þess að ná til fólks. Hún og Kate deildu áhuga á listasögu Úkraínu, en það var Niku mikið í mun að halda á lofti röddum þeirra listamanna sem höfðu verið þaggaðar niður. „Við eigum óteljandi raddir, sem fá aldrei að hljóma aftur,“ sagði Nika í síðasta myndbandinu sem hún tók upp, aðeins tveimur dögum áður en sprengjan féll. Kate vill halda minningu og hugsjón vinkonu sinnar á lofti, með því að opna sýningu í Deiglunni með verkum Niku og skilaboðum. 

Það var bókstaflega verið að leita listafólkið uppi, handtaka þau og taka af lífi, en þetta átti sér stað á þriðja áratug síðustu aldar, fyrir næstum því hundrað árum síðan

„Hún var ein af mínum bestu vinum,“ segir Kate. „Hún var myndlistarkona, teiknaði mikið og svo skrifaði hún og orti ljóð. Við kynntumst þegar hún var 13 og ég 16 ára, en fyrst var ég í rauninni að kenna henni að teikna og svo þróaðist mikil vinátta. Við höfðum sameiginlegan áhuga á fantasíuheiminum, tónlist og listasögu Úkraínu.“ Nýverið hélt Kate þriðjudagsfyrirlestur á Listasafninu á Akureyri undir heitinu 'The Executed Renaissance of Ukraine' - en þar vakti hún athygli á sögu heillar kynslóðar úkraínskra listamanna sem voru tekin af lífi undir ógnarstjórn Sovíetríkjanna. Áhuganum á þessum sorgaratburðum og áhrifum þeirra á nútímalist heimalandsins, deildi hún með Niku. 

 

Kate ætlar að halda áfram að vekja athygli á listasögu heimalandsins og berjast fyrir sessi hennar í tilverunni. Mynd RH

Fræðslan var hafin á samfélagsmiðlum Niku

„Sovíetmenn vildu þagga niður í röddum listamanna í Úkraínu,“ segir Kate. „Það var bókstaflega verið að leita listafólkið uppi, handtaka þau og taka af lífi, en þetta átti sér stað á þriðja áratug síðustu aldar, fyrir næstum því hundrað árum síðan. Tilgangurinn með þessum ofsóknum var einfaldlega að reyna að þurrka út og þagga niður í menningarlífi Úkraínu og áhrifum þess á heiminn í stærra samhengi. Þessir atburðir og þetta fólk hefur sett svip sinn á listasögu Úkraínu síðan, og það var Niku og mér mikið í mun að halda sögu þeirra á lofti.“ 

„Nika var byrjuð að búa til fræðsluefni fyrir yngri kynslóðir um þessa atburði,“ segir Kate. „Svo að ungt listafólk í Úkraínu myndi skilja hvaðan við erum að koma. Ég ætla að sýna myndbandið sem hún var búin að gera og setja á samfélagsmiðla á sýningunni, en það sorglega er að hún náði ekki að búa til fleiri. Hún var úti á götu tveimur dögum síðar, þegar hún varð fyrir sprengjubrotinu frá Rússum.“ 

 

Hluti af teikningu eftir Niku. Mynd RH

Teikningar Niku eru áhrifamiklar en sýning Kate á verkum vinkonu sinnar verður opin í Deiglunni frá kl. 13-20, laugardaginn 1. mars, sunnudaginn 2. mars og svo aftur næstu helgi, 8. og 9. mars. Aðgangur er ókeypis en hægt verður að kaupa boli með teikningum eftir Niku, en ágóðinn fer til sjóðsins 'Nika generation', sem er stofnaður af föður Niku og tónlistarfólki sem ætlar að styrkja ungt listafólk í Úkraínu. 

Kate er sjálf listakona, en hún lærði stafræna list í Kyiv og fyrir innrás Rússa í Úkraínu vann hún við listkennslu barna, myndskreytingar og hönnun. Listamannsnafnið hennar er Robert Whale-Lover. Hún skrifar einnig bækur og ljóð. Hún kom sem flóttamaður með móður sinni til Íslands árið 2021.

Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook