Fara í efni
Mannlíf

Helber misskilningur að tíminn lækni öll sár

Sú gamla mýta að tíminn lækni öll sár er helber misskilningur og nánast villandi, sagði séra Jóhanna Gísladóttir, prestur í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli, við messu í Akureyrarkirkju í morgun – á allra heilagra messu, minningardegi um allar látnar sálir.

„Sárin gróa vissulega með tíð og tíma en mörg skilja eftir sig djúp ör sem verða hluti af tilvist okkar það sem eftir er. Þessi ör þurfa ekki að vera okkur fjötur um fót, síður en svo, en þau eru sýnileg í þeim skilningi að við erum breyttar manneskjur á vissan hátt eftir missi,“ sagði séra Jóhanna.

Hún ræddi um sorgarferlið sem hefst eftir útför, hvað gerist þegar hversdagsleikinn tekur við að nýju eftir missi. „Þegar lífið heldur áfram hjá öllum, nema hinum syrgjandi. Oft er það ekki fyrr einhverjum vikum, jafnvel mánuðum eftir andlát ástvinar, sem hið raunverulega sorgartímabil hefst,“ sagði Jóhanna meðal annars. 

„Íslenskt samfélag gefur afar lítið rými fyrir syrgjendur til að „vera úr leik“ lengur en í örfáa daga eða nokkrar vikur hið mesta. Jafnvel þau sem missa maka eða barn upplifa mörg þrýsting frá samfélaginu að verða sem fyrst fullir þátttakendur í því á nýjan leik. Sorgin þarf hins vegar að fá sinn tíma og þau sem ómeðvitað reyna að dempa vanlíðan sína, byrgja fyrir slæma líðan því hún er svo óþægileg, þau eru oftast mun lengur að jafna sig en þau sem leyfa sér einmitt að syrgja og takast á við missinn.“

Smellið hér til að lesa ræðu séra Jóhönnu