Heklar kolkrabba fyrir litlar hendur

Ýmislegt er bardúsað í saumastofunni í Sölku, félagsmiðstöð fólksins í Víðilundi. Á þriðjudögum og fimmtudögum er opin vinnustofa í handavinnu þar sem hægt er að koma og vinna að eigin verkefnum eða einhverju hópverkefni. Til dæmis eru prjónaðir bangsar sem fara í sjúkrabílana í bænum, sem eru svo gefnir börnum sem lenda í sjúkraflutningum. Annað verkefni eru heklaðir kolkrabbar, sem fara á fæðingardeildina á SAk. Kristín Ólafsdóttir er ein af þeim, sem hefur verið iðin við kolkrabbann.
Mér skilst að fálmarnir á þessu, eða armarnir, líki svolítið eftir naflastreng
„Ég nennti ekki að búa til eitthvað sem engan vantar,“ segir Kristín við blaðamann Akureyri.net. „Ég viðurkenni að ég hef reyndar frekar gaman af þessu. Ég fæ garnið hérna í Sölku eða ég finn það í Hertex eða öðrum nytjamarkaði. Ég veit að þessir kolkrabbar fara upp á spítala, sem mér finnst gott mál. Barn, sem þarf að vera lengur en sólarhring á spítalanum fær einn svona. Til dæmis er dvölin lengri en sólarhringur ef börn fæðast fyrir tímann. Mér skilst að fálmarnir á þessu, eða armarnir, líki svolítið eftir naflastreng. Það á að vera gott fyrir börnin að halda í þetta.“
Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku.
- Í GÆR – KYNNUMST BIRTU OG SÖLKU Í PÁLÍNUBOÐI
- Á MORGUN – PÚLA Í HRÚTAKOFANUM Í GÓÐRA VINA HÓPI
Armarnir á kolkröbbunum líkja eftir naflastreng í móðurkviði. Myndir: RH
Sveitakona og síðar starfsmaður heimaþjónustunnar
„Ég er úr Svarfaðardal, fæddist þar og var svo bóndi bæði í Skíðadal og Hörgárdal,“ segir Kristín. „Eftir að ég flutti til Akureyrar fór ég að vinna í heimaþjónustunni og hafði mjög gaman af því. Ég fékk að hitta svo mikið af fólki og kjafta. Eftir að ég hætti að vinna fór ég að koma hingað. Fyrst með vinkonu minni, en við erum oft hérna saman. Ég var orðin ein, og hvað á maður annars að gera? Hanga bara einn?“
„Ég er svo líka að prikla inn í gróðrarstöð fyrir Akureyrarbæ,“ segir Kristín. „Það er bara af því að mér finnst það gaman. Það er svona núvitund eiginlega, góð slökun.“
Nýtt líf fyrir verðmætar dúllur
Blaðamaður kemst ekki hjá því að taka eftir því sem Kristín er að vinna að núna, og forvitnast um taupoka sem hún er að sauma í fríhendis. „Ég mætti á námskeið í frjálsum útsaumi hjá Bergþóru Jóhannsdóttur, en það eru reglulega ýmiskonar námskeið haldin í Sölku. Hún var að gera prufur með að nýta gamlar dúllur, og ég mundi eftir þessum dúllum sem ég átti,“ segir Kristín. „Mamma gerði þessa hringlóttu, og móðursystir mín gerði þessar ferköntuðu. Hún var berklasjúklingur á Kristneshæli og hún prjónaði alltaf í rúminu. Ég fékk húfur og allskonar frá henni. Hún hét Stefanía Haraldsdóttir.“
Hringinn gerði móðir Kristínar, en ferköntuðu dúllurnar gerði móðursystir hennar. Kristín er búin að handsauma þær með skapandi hætti á taupoka. Mynd: RH
Handavinna er ekki lengur framleiðsla
„Ég fékk þá hugmynd að gefa þessum dúllum framhaldslíf á þennan hátt, að sauma þær á poka á námskeiðinu, og Bergþóru fannst það sniðugt,“ segir Kristín. „Það er mjög gaman þegar maður getur virkjað sköpunina í handavinnunni. Búa til eitthvað nýtt. Hér áður fyrr prjónaði ég bara það sem þurfti að prjóna á heimilisfólkið og það var eiginlega meiri framleiðsla heldur en sköpun. Þetta er skemmtilegra, ég nýt þess að dunda með þessa kolkrabba til dæmis.“
„Ég held að það sé eitthvað varið í þessa bangsa sem fara í sjúkrabílana og kolkrabbana,“ segir Kristín að lokum. „Það er ekkert hægt að kaupa þetta út í búð. Ekki fjöldaframleitt eins og svo margt er í dag. Það fylgir þessu einhver hlýja, sem fæst ekki hvar sem er.“
Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku.
- Í GÆR – KYNNUMST BIRTU OG SÖLKU Í PÁLÍNUBOÐI
- Á MORGUN – PÚLA Í HRÚTAKOFANUM Í GÓÐRA VINA HÓPI