Fara í efni
Fréttir

Heimir: Ósanngjarn landsbyggðarskattur

Ferðakostnaður barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi á landsbyggðinni hefur aukist á síðustu árum en framlag ríkisins rýrnað umtalsvert. Úthlutunarfé úr Ferðasjóði íþróttafélaga, sem Íþrótta- og ólympíusamband Íslands heldur utan um, lækkaði um 3,1 milljón króna frá 2019 til 2023 en seinna árið var sótt um rúmlega 160 milljón krónum meira en það fyrra.

Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs á Akureyri, fjallar um þetta í grein sem birtist í dag.

„Ferðakostnaður íþrótta- og tómstundafélaga á landsbyggðinni er í mörgum tilvikum ansi þungur baggi að bera og eru dæmi um að ferðakostnaður hjá fjölskyldu með tvö börn í tveimur íþróttagreinum sé á milli 700-800 þúsund ári,“ segir Heimir. „Þar við bætast æfingagjöld, þannig að samanlagður kostnaður fjölskyldunnar í þessu dæmi nemur líklega um eða yfir einni milljón króna. Svo íþyngjandi er ferðakostnaður ungra iðkenda á landsbyggðinni að þau eru sum hver byrjuð að sleppa sumum ferðum og alls ekki allar fjölskyldur með börn á aldrinum 11-14 ára hafa ráð á því að leyfa þeim að stunda fleiri en eina íþróttagrein eða taka þátt í því tómstundastarfi sem hugur þeirra stendur til.“

Heimir segir ennfremur: 

„Rýrnun Ferðasjóðs íþróttafélaga leggst þyngst á fólkið sem býr utan höfuðborgarsvæðisins og því er óhætt að fullyrða að hér sé einfaldlega um að ræða ósanngjarnan landsbyggðarskatt að ræða.

Brýn þörf er á því að ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki taki höndum saman í samstilltu átaki um að styðja við bakið á íþrótta- og tómstundarfélög í þessum vanda. Ríkið þarf að ríða á vaðið og hækka framlög í Ferðasjóð íþróttafélaga og það strax á næsta ári.“

Málið verður til umræðu á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í dag.

Grein Heimis Arnar: Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019