Fara í efni
Íþróttir

Heimasigrar í hokkí og handbolta í dag

Guðrún Ásta Valentine í leiknum í kvöld, sínum fyrsta meistaraflokksleik fyrir SA þar sem hún skoraði einnig sitt fyrsta mark. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Af sjö leikjum sem Akureyrarlið í hópíþróttum spiluðu í dag og voru listaðir upp hér á Akureyri.net í gær voru þrír heimaleikir. Karla- og kvennalið SA í íshokkí tóku á móti liðum Fjölnis og KA/Þór tók á móti neðsta liði Grill 66 deildarinnar í handbolta. Öll þrjú unnu sína leiki, en íshokkíkonurnar þurftu framlengingu og vítakeppni til að kreista fram sigurinn og fengu því aðeins tvö stig, en ekki þrjú. Guðrún Ásta Valentine, nýorðin 13 ára, skoraði eitt marka SA í sínum fyrsta meistaraflokksleik.

 

Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði eitt marka SA í dag. Úlfar Andrésson til vinstri skoraði ett marka Fjölnis. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Örlögin réðust á 88 sekúndum

Fyrri hokkíleikur dagsins var viðureign karlaliða SA og Fjölnis. Gestirnir komust yfir í fyrsta leikhluta, en heimamenn jöfnuðu í öðrum. Aftur komust Fjölnismenn yfir í upphafi þriðja leikhluta, en þrjú mörk Akureyringa á 88 leiksekúndum um miðjan leikhlutann og svo eitt í viðbót skömmu síðar tryggðu þeim góða stöðu á lokakaflanum og sigurinn þegar upp var staðið. Fjölnir náði að minnka muninn í 5-3, en ekki meira.

Mörk SA skoruðu Hafþór Andri Sigrúnarson, Orri Blöndal, Róbert Hafberg, Gunnar Aðalgeir Arason og Unnar Hafberg Rúnarsson.

Með sigrinum kom SA sér í góða stöðu á toppi deildarinnar, er nú með sex stiga forskot á SR og leik til góða að auki. SA hefur 32 stig úr 14 leikjum og SR 26 úr 15 leikjum. SA á fjóra leiki eftir.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá upptöku af honum í spilaranum.

Framlengt og vítakeppni hjá konunum

Leikur kvennaliða SA og Fjölnis var jafn og spennandi og þurfti framlenginu og vítakeppni til að skera úr um sigurvegara leiksins. Gestirnir úr Fjölni komust þrívegis yfir í leiknum, einu sinni í hverjum leikhluta, en alltaf tókst SA að jafna. Amanda Ýr Bjarnadóttir, Guðrún Ásta Valentine og Kolbrún Björnsdóttir skoruðu mörk SA. Guðrún Ásta er nýorðin 13 ára og var að spila sinn fyrsta leik með meistaraflokki. Þá er um að gera að grípa tækifærið og skora fyrir liðið sitt.


Guðrún Ásta Valentine fékk að eiga pökkinn sem hún kom í mark Fjölnis í kvöld, en það var hennar fyrsta meistaraflokksmark í hennar fyrsta meistaraflokksleik. Mynd: Ari Gunnar Óskarsson.

Mark Guðrúnar Ástu má sá í spilaranum hér að neðan. 

Ekkert var skorað í framlengingunni, en í vítakeppninni skoruðu Anna Sonja Ágústsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir. Shawlee Gaudreault varði þrjú víti frá Fjölniskonum. 

 

Shawlee Gaudreault í marki SA varði 25 af 28 skotum sem hún fékk á sig í leiknum og framlengingunni, og að auki þrjú víti í vítakeppninni sem SA vann. Mynd: Rakel Hinriksdóttir. 

Með sigrinum náði SA að minnka forskot Fjölnis á toppi deildarinnar um eitt stig. Fjölnir er nú með 24 stig og SA 22, en bæði lið hafa leikið 12 leiki og eiga fjórum leikjum ólokið. SA og Fjölnir mætast aftur í Skautahöllinni á Akureyri á morgun og þá hefur SA tækifæri til að lauma sér upp fyrir Fjölni með sigri. 

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá upptöku af honum í spilaranum.

KA/Þór með yfirburðasigur á Berserkjum

Leikmenn KA/Þórs þurftu ekki mikið að hafa fyrir sigrinum á Berserkjum þegar liðin mættust í KA-heimilinu síðdegis í dag. Yfirburðirnir voru miklir og vann KA/Þór með 20 marka mun.

Unnur Ómarsdóttir var markahæst hjá KA/Þór, skoraði níu mörk, og þær Bergrós Ásta Guðmundsdóttir og Hildur Magnea Valgeirsdóttir skoruðu sjö mörk hvor. Matea Lonac og Sif Hallgrímsdóttir vörðu samtals 15 skot.

KA/Þór er áfram með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar, 26 stig, en helsti keppinauturinn, Afturelding, er með 21 stig eftir sigur á FH í gær. 

Unnur Ómarsdóttir var markahæst hjá KA/Þór í dag með níu mörk. Mynd: Skapti Hallgrímsson