Fara í efni
Menning

„Hef gaman af glímunni við tungumálið“

Akureyringurinn Pálmi Ragnar Pétursson sendi nýverið frá sér ljóðabókina Árniður að norðan. Hann hefur lengi fengist við að setja saman ljóð og prósa; byrjaði á því þegar mikil sorg knúði dyra fyrir margt löngu. Pálmi hefur hins vegar aldrei birt eigin skrif fyrr en nú, sextugur að aldri.

„Þegar stórt er spurt. Það er nokkuð um liðið síðan við spiluðum fótbolta við Oddeyrarskóla, Skapti!“ svarar Pálmi þegar blaðamaður, ögn eldri, forvitnast um hvað viðmælandinn hafi fengist við í lífinu.

  • Fyrri hluti samtalsins við Pálma Ragnar birtist í dag og sá síðari á morgun.

„Eftir að ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1984 lá leið mín suður. Ég man að meistari Tryggvi sagði við pabba við útskriftina í Akureyrarkirkju að ég væri vel menntaður. Mér þykir vænt um þá minningu,“ segir Pálmi.

„Ég ól með mér draum um að verða stjörnufræðingur. Hin elsta af vísindagreinunum heillaði og Þórir Sigurðsson, kennari og stjarneðlisfræðingur, náði vel til mín. Ég skráði mig í eðlisfræði við Háskólann, fullur áhuga.“

Örlögin gripu hins vegar í taumana.

Fjörutíu ára gömul mynd af fjölskyldunni í Kotárgerði 23, tekin skömmu eftir útskrift Pálma úr M.A. í júní 1984. Pálmi Ragnar segir um fjölskylduna; efri röð frá vinstri, Pálmi Ragnar (verkfræðingur í Garðabæ), Ragnhildur Ólafía (fiðluleikari í New York), Katrín Ólína (iðnhönnuður í Reykjavík), Jón Rafn Pétursson (viðskiptafræðingur í Uppsala, Svíþjóð), Hrafnhildur Ester Pétursdóttir, (tannfræðingur á eftirlaunum – stoð systkinanna og stytta), Dagbjört Helga (lífefnafræðingur í Stokkhólmi, Svíþjóð), Pétur Jökull Pálmason (verkfræðingur á Akureyri, f. 1.10.1933, d. 1.09.1984).

„Rétt áður en ég hóf nám lést pabbi, Pétur Jökull Pálmason, sviplega. Hann fór út að hlaupa í Kjarnaskógi, fékk hjartaáfall og lést þar. Pabbi var okkur systkinum og mömmu harmdauði, og fráfall hans gífurlegt áfall. Breytti lífinu til frambúðar. Maður í blóma lífsins, yndislegur fimm barna faðir, stofnandi og framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen á Akureyri, var kallaður burt 51 árs, langt fyrir aldur fram. Lengi á eftir gat ég ekki hugsað mér að koma í Kjarnaskóg, sársaukinn var það mikill. Í dag hef ég tekið skóginn í sátt. Þarna dó pabbi, þar sem nú er útivistarparadís Akureyringa. Það er hægt að hugsa sér verri stað og kringumstæður. Hann hvílir nú í kirkjugarðinum skammt norðar. Síðasta ljóðið í bókinni minni heitir einmitt Samfundur á Suðurbrekku.“

Eðlisfræði, skák og dans

„Ég var eina önn í eðlisfræði en kom þá norður til mömmu og systranna, Katrínar Ólínu, Ragnhildar Ólafíu og Dagbjartar Helgu. Jón Rafn bróðir var þá fluttur suður ásamt unnustu sinni Birgittu Birgisdóttur. Til gamans má geta þess að ég kom norður með silfurverðlaun á Íslandsmóti í dansi með frjálsri aðferð í farteskinu! Það vakti nokkra athygli og kátínu að nemandi í eðlisfræði, og skákmaður í ofanálag, skyldi taka þátt í slíkri danskeppni, hvað þá hljóta verðlaun. En ég hafði einmitt dansað breikdans á síðasta ári mínu í menntó. Sýndi meira að segja breikdans á íþróttavellinum og Ráðhústorgi 17. júní 1984 á útskriftardaginn og dansaði við skólameistarann í Sjallanum við undirleik Ingimars Eydal. Svona er lífið skrýtið stundum.“

Akureyringurinn Pálmi Ragnar við Ráðhústorg – á 40 ára stúdentsafmælinu í sumar – vel merktur árgangi sínum. 

Þýska geimferðastofnunin

„Ég var óráðinn um framtíðina þarna, vildi vera fyrir norðan auk þess sem ég vildi gefa skákinni tækifæri. Það varð þó eitthvað endasleppt, enda skákin harður húsbóndi.“

Ári eftir að Pétur faðir Pálma lést lá leiðin suður á nýjan leik. „Praktíkin hafði yfirhöndina yfir rómantíkinni og ég skipti úr eðlisfræði yfir í rafmagnsverkfræði haustið 1985 og útskrifaðist rafmagnsverkfræðingur fjórum árum síðar. Vann hjá Verkfræðistofnun í ár, áður en ég fór utan til Þýskalands í framhaldsnám. Ég var í Karlsruhe fyrst en flutti mig svo yfir til München, þar sem ég hafði tækifæri til þess að vinna lokaverkefni hjá DASA, þýsku geimferðastofnuninni, undir handleiðslu Sigfúsar Björnssonar prófessors og Þorsteins Halldórssonar, eðlisfræðings og yfirmanns rannsóknardeildar rafljósfræði þar á bæ.“

München og Berlín

Lokaverkefni Pálma snerist um leysiskönnun á ljósdreifandi efni, einkum fiski. „Í München átti ég eftir að búa heilan áratug. Þar kynntist ég konu minni, Katrínu Matthíasdóttur, á lýðveldishátíð Íslendingafélagsins, 17. júní 1992 við ána Isar – hið græna fljót. Við áttum yndislegan tíma í München, dingluðum okkur, hamingjusöm í Bæjaralandi, ferðuðumst heilmikið á frægu grænu rúgbrauði og nutum lífsins. Og já, ég heimsótti bjórhátíðina frægu á hverju ári. Það tilheyrir að fara alla vega einu sinni á Oktoberfest, Engin, eins og félagar í íslensku nýlendunni við Alparæturnar kalla Theresienwiese – svæðið þar sem hátíðin er haldin.“

Um aldamótin fluttu Pálmi og Katrín til Berlínar, „þar sem tvíburarnir okkar, Pétur Jökull og Pálmi Albert, komu í heiminn. Við fluttum svo aftur heim til Íslands um haust 2001. Þriðji sonurinn, Matthías Hildir, fæddist 2003. Við Katrín eigum því þrjá stráka, eða ungmenni í dag. Þeir eru stolt okkar og ljóðabókin er líka fyrir þá.“

Pálmi Ragnar við leiði föður síns, Péturs Jökuls Pálmasonar, verkfræðings, í kirkjugarðinum á Naustahöfða. Pétur Jökull varð aðeins 51 árs – var fæddur 1933 og lést 1984. 

Hef gaman af glímunni við málið

Hefurðu lengi fengist við ljóðagerð eða einhvers konar skriftir? Þetta er fyrsta ljóðbókin, ekki satt?

„Árið 2017 þýddi ég barnabók úr þýsku – Ævintýrið um litla Dag eftir Wolfram Eicke sem kom út hjá Sögum útgáfu. Litla sögu með fallegum friðarboðskap. En jú, það er annars rétt. Þetta er fyrsta bók mín, með mínum upprunalega texta,“ segir Pálmi. „Ég hef lengi fiktað við ljóð og prósa eins og margir landar okkar raunar. Hef gaman af þessari glímu við málið, hvort tveggja laust og bundið. Skáldskapur var oft hafður á vörum á æskuheimili mínu.“

Hann heldur áfram: „Theodóra Thoroddsen var langamma mín og við systkinin handlékum oft Þulur hennar, myndskreyttar af Muggi og Sigurði Thoroddsen – lásum langar þulur og lærðum utanbókar eins og Tunglið tunglið taktu mig. Jón Thoroddsen skáld, tengdafaðir Theódóru, var langalangafi minn. Þá voru pabbi og Hannes Pétursson skáld bræðrasynir og bækur Hannesar teknar úr hillum og lesnar ásamt mörgu öðru. Svo má ekki gleyma ritum föðurafa míns, Pálma Hannessonar rektors, sem var fyrir utan allt annað afbragðs penni, rithöfundur og skáld í rauninni. Ég les ritgerðir hans og texta reglulega og tel þá með því besta sem ég les. Af móðurömmu minni, Ólafíu Sigurðardóttur, 13 barna móður lærði ég líka margt þegar hún dvaldi hjá okkur. Hún fór með vísur og söng.“

Eftir að pabbi dó ...

„Annars hafði Gísli Jónsson menntaskólakennari töluverð áhrif á mig. Hann hóf hverja kennslustund á því að lesa upp ljóð með sínu hægláta, fallega fasi og áhrifamiklu rödd. Sjálfur fór ég ekki að lesa ljóð af alvöru fyrr en eftir að pabbi dó. Þá hellti ég mér í lestur, las m.a. Stein Steinar, Einar Ben, Jón Helgason, Snorra Hjartarson, Halldór Laxness, Hannes Pétursson, Jónas Hallgrímsson og já, gömlu Skólaljóðin, bláu bókina, myndskreytta af Halldóri Péturssyni. Sú bók hefur fylgt mér hvert á land ásamt Bókinni um veginn og Fósturjörð, úrvali texta Pálma Hannessonar.“

Pálmi nefnir líka Akureyrarskáldin, Davíð Stefánsson og Kristján frá Djúpalæk sem hann segist hafa kynnt sér „og sungið lög við texta þeirra. Síðast í sumar á fjörutíu ára stúdentsafmælinu tók ég hraustlega undir með félögum mínum í skólasöng MA eftir Davíð og svo tókum við auðvitað Vor í Vaglaskógi eftir Kristján við lag Jónasar Jónassonar. Það tilheyrir. Af yngri höfundum finnst mér mikið til Ísaks Harðar koma og Gyrðir og Gerður Kristný eru náttúrlega frábær.“

Á MORGUNNÚ MEGA STJÖRNURNAR FARA AÐ VARA SIG