Fara í efni
Fréttir

Hátt til lofts og vítt til veggja í Vínbúðinni

Nýja Vínbúðin í verslunarkjarnanum Norðurtorgi við Austursíðu. Við afgreiðslukassann situr Runólfur Gautason aðstoðarverslunarstjóri. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Ný Vínbúð var opnuð í verslunarkjarnanum Norðurtorgi á Akureyri í gærmorgun. Sem fyrr rekur Áfengis- og tóbaksverslun ríksins eina verslun í höfuðstað Norðurlands því skellt var í lás í síðasta sinn í gömlu Vinbúðinni við Hólabraut í lok vinnudags á mánudag.
 
Nýja verslunin er björt og rúmgóð, hátt til lofts og vítt til veggja. Gott lagerrými er baka til, ekki mikið stærra en á gamla staðnum en ólíkt þægilegra fyrir starfsmenn því lagerinn við Hólabraut var á tveimur hæðum.
 
ÁTVR hefur rekið Vínbúð á Akureyri frá stofnun árið 1922 með smá hléi á árunum eftir 1953 þegar ákveðið var að loka versluninni eftir atkvæðagreiðslu í bænum. Í annarri atkvæðagreiðslu 1956 var ákveðið að opna aftur áfengisverslun á Akureyri. Vínbúðin var rekin í Hólabraut í tæp 64 ár.
 

Fyrsti viðskiptavinurinn í Vínbúðinni á Norðurtorgi í gærmorgun. Hann var meira en til í að leyfa ljósmyndaranum að smella af sér mynd en Akureyri.net er ekki kunnugt um nafn mannsins. Mynd: Þorgeir Baldursson 

Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR, til vinstri, og Elsa Ágústa Eysteinsdóttir, verslunarstjóri á Akureyri, voru glaðar í bragði eftir að nýja Vínbúðin var opnuð í gærmorgun. Mynd: Þorgeir Baldursson

Lagerrými nýju Vínbúðarinnar.

Fremri hluti verslunarinnar, aðalrýmið.

Salur inn af aðal verslunarrýminu. Örlítið kaldara en hér frammi og finna má fjölda bjórtegunda og nokkrar tegundir hvítvíns að sögn starfsmanns.