Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur gefið út viðvörun vegna hættulegra lyfja í framhaldi af því að upp hafa komið mál hjá lögreglu þar sem vísbendingar eru um að framboð á ólöglegum lyfjum sé að aukast á svörtum markaði.
Í nokkrum málum sem hafa komið til kasta lögreglu hefur lyfið Bromazolam fundist, en það er einungis framleitt á svörtum markaði og því mjög varasamt, að því er fram kemur í tilkynningunni. Bent er á að efnið tilheyri flokki benzódíazepínsambanda og hafi verið þróað á áttunda áratugnum, en aldrei sett á markað. Helsta hættan sé að þessi efni séu framleidd ólöglega og oft seld útlítandi eins og um raunveruleg lyf sé að ræða. Hins vegar geti skammturinn og innihaldið verið breytilegt og efnin séu sérstaklega hættuleg þegar þau eru tekin samhliða áfengi og öðrum lyfjum eins og ópíóíðum.
Tilkynningin, eins og hún birtist á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra:
Að undanförnu hafa komið upp mál hjá lögreglu þar sem vísbendingar eru um að framboð á ólöglegum lyfjum sé að aukast á svörtum markaði. Sérstök ástæða er til að vara við þessu. Fundist hafa töflur sem líta út fyrir að vera venjuleg lyf og eru jafnvel í umbúðum sem gefa það til kynna en við rannsókn reynist svo ekki vera. Þess háttar lyf geta verið sérstaklega hættuleg þar sem að þau eru ekki framleidd af löggildum lyfjaframleiðendum og því óvíst um styrkleika þeirra.
Nokkur dæmi eru um að lyfið Bromazolam hafi fundist í málum lögreglu en það lyf er einungis framleitt á svörtum markaði og því mjög varasamt. Efnið tilheyrir flokki benzódíazepínsambanda sem verka á miðtaugakerfið og hafa róandi og kvíðastillandi áhrif. Efnið var þróað um 1976 en var aldrei sett á markað. Helsta hættan við þessi benzódíazepínsambönd er að þau eru framleidd ólöglega og eru oft seld útlítandi sem raunveruleg lyf. En skammturinn og innihaldið getur verið breytilegt. Efnin eru sérstaklega hættuleg þegar þau eru tekin samhliða áfengi og öðrum lyfjum eins og ópíóíðum.
Við beinum því til almennings að upplýsa fólk í nærsamfélagi sínu um hættur af slíkri lyfjanotkun.