Fara í efni
Fréttir

Gunnar Viðar oddviti Lýðræðisflokksins

Mynd: Austurfrétt

Gunnar Viðar Þórarinsson, framkvæmdastjóri á Reyðarfirði, skipar efsta sætið á lista Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

„Gunnar Viðar er þekktastur úr sjoppurekstri þar sem hann hefur tekið við fyrrum þjónustustöðvum olíufélaganna, til að mynda Orkunnar á Reyðarfirði og Olís í Fellabæ. Hann rekur nú tíu sjoppur víða um landið. Þá hefur hann einnig komið að gistirekstri á Reyðarfirði,“ segir á vef Austurfréttar í morgun.

Helga Dögg Sverrisdóttir, kennari og sjúkraliði á Akureyri, er í 2. sæti á lista flokksins og Bergvin Bessason, blikksmiður, er í 3. sæti. Hann er einnig búsettur á Akureyri.

Arnar Þór Jónsson stofnandi Lýðræðisflokksins tilkynnti í morgun hverjir skipa þrjú efstu sæti á listum flokksins í öllum kjördæmum í kosningunum 30. nóvember. Arnar Þór, sem bauð sig fram til forseta Íslands í sumar, er fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann verður í 1. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.