Fara í efni
Fréttir

Gul viðvörun og vetrarveður næstu daga

Á Íslandi er allra veðra von, jafnvel um miðjan maí. Skjáskot af vedur.is.

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér gula viðvörun fyrir Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, miðhálendið, Strandir og Norðurland vestra. Búast má við vetrarfærð á fjallvegum norðan og austanlands í nótt og á morgun. Spáð er norðlægri átt á mánudag, slyddu eða snjókomu og vægu frosti á norðanverðu landinu.

Í viðvörun fyrir Norðurland eystra sem tekur gildi á miðnætti í kvöld og stendur fram til kl. 23 á sunnudagskvöld segir: „Norðvestan 10-18 m/s og slydda eða snjókoma á fjallvegum, hvassast austantil. Skyggni getur orðið mjög takmarkað og hálka líkleg. Líkur á vetrarfærð, þ.a. ekki ætti að leggja í langferðir á vanbúnum bílum.“

Athugasemd veðurfræðings, skrifuð í morgun: „Búist er við vetrarfærð á fjallvegum norðan- og austanlands í nótt og á morgun. Vegfarendur ættu að kanna vel ástand vega og veðurspár áður en lagt er af stað. Veðurviðvaranir hafa verið gefnar út. Einnig er búist við snjókomu og vertarfærð víða á norðanverðu landinu á mánudag.“

Veðurspáin frá því í morgun fyrir allt landið, sem gildir fyrir næsta sólarhring hljómar svona: „Gengur í austan og norðaustan 5-13 m/s með rigningu, fyrst sunnantil. Hiti 6 til 12 stig. Vestlægari í kvöld, bætir í vind og kólnar. Norðvestan og vestan 8-13 m/s á morgun, en 13-18 um landið norðaustanvert. Víða rigning eða slydda og snjókoma á heiðum norðantil, en bjart með köflum og yfirleitt þurrt á Suður- og Vesturlandi eftir hádegi. Hiti 1 til 9 stig, hlýjast syðst. Lægir heldur, rofar víða til annað kvöld og kólnar heldur.