Gufugusur eru hafnar í Sánuvagni Mæju
![](/static/news/lg/dsc01492.jpg)
Ef til vill hafa vegfarendur Drottningarbrautar tekið eftir aukinni umferð fólks á sundfötum við bryggjuna hjá siglingaklúbbnum Nökkva. Það mætti teljast undarlegt, þar sem veðurguðirnir hafa ýmist boðið upp á brunagadd eða fárviðri og hláku það sem af er ári. Að spóka sig hálfnakinn utandyra, eða skella sér út í sjó, er kannski það síðasta sem fólki myndi detta í hug um þessar mundir.
Það er þó fullkomlega skynsamleg ástæða fyrir auknum sjóböðum og sundfatasýningu við Nökkva. Sánuvagn Mæju hefur verið staðsettur þar síðan í upphafi árs, þar sem María Pálsdóttir, leikkona og sánameistari, býður upp á svokallaðar sánugusur. En hvað í ósköpunum er það?
Hér kemur sánameistarinn í fararbroddi út í blíðuna. Blaðamanni var boðið að fylgjast með gusuathöfn 31. janúar. Þáttakendur í gusunni eru öll samþykk myndbirtingum og taka eflaust að sér önnur módelstörf ef áhugi er fyrir hendi. Frábær hópur.
Ávextir, snakk og vatn er í boði til hressingar á milli gusa. Útsýnið yfir Eyjafjörðinn spillir alls ekki fyrir.
Kjöraðstæður til gusu og sjóbaðs við Nökkva
„Ég er með þennan fína sánuvagn, sem ég pantaði til mín eins og IKEA-húsgagn, og setti saman með góðri hjálp,“ segir María, rjóð og sælleg á sundbolnum. „Hérna býð ég upp á gusur, þar sem fólk kemur og tekur þrjár gufugusur í góðum hita inn í sánunni, fimmtán mínútur í senn. Á milli fer fólk út og kælir sig niður eins og hentar, sum fá sér snjó- og vindkælingu, önnur fara í sjóinn og svo er í boði líka að næra sig.“
María býður upp á snakk, ávexti og vatn fyrir utan gufuna, en það er mikilvægt að drekka vel í gufugusum. Siglingaklúbburinn Nökkvi hefur verið mjög gestrisinn, að sögn Maríu, en hún fær að hafa sánuvagninn þar á veturna, vorin og haustin. „Ég færi hann svo eitthvað annað á sumrin, þegar þeirra ball byrjar.“ Aðstaðan við Nökkva hentar einstaklega vel, það er stutt fyrir gesti að koma, gott aðgengi að sjónum til kælinga og svo er búningsaðstaða og sturtur inni í húsinu.
Mér finnst svo langbest, í pásunum, að fara í sjóinn. Það er mesta kikkið fyrir húðina og líkamann.
Í heildina tekur gusan hjá Maríu rúmlega klukkustund, sem samanstendur af þremur fimmtán mínútna gusum og pásum á milli. „Inn í gufunni hef ég góðan hita og spila góða tónlist,“ segir María. „Svo fylgir líka svolítil ilmupplifun, en ég er með ilmkjarnaolíur til þess að hreinsa og hressa. Mér finnst svo langbest, í pásunum, að fara í sjóinn. Það er mesta kikkið fyrir húðina og líkamann. En það er engin skylda! Sum kæla sig bara í vindinum og fá sér snakk, sem er frábært líka.“ Lengd pásunnar fer mikið eftir aðstæðum úti, þegar það er tíu stiga frost er ef til vill stoppað styttra úti við.
Blaðamaður náði mynd af sánameistaranum að undirbúa gusuna, en nokkrum sekúndum síðar var allt á kafi í gufu og myndavélin ekki til í tuskið.
Mæja fór á námskeið í því að halda utan um gufugusur, en það felur svo sannarlega meira í sér, en bara að skvetta vatni á steina og setjast svo niður. Það er heil athöfn í kring um þetta, þar sem sánameistarinn sveiflar gufunni um allt. Svo er hún líka DJ og spilar tónlist fyrir gesti.
María segir að allir gestir hafi verið himinlifandi hingað til. „Ég man eftir fyrsta skipti sem ég prófaði þetta sjálf, hjá Hafdísi í Rjúkandi fargufu fyrir sunnan,“ segir hún. „Mér fannst þetta geggjað. Ég hef alltaf verið hrifin af gufuböðum, bjó t.d. í Finnlandi, en þetta með að kæla á milli, var eitthvað alveg nýtt. Ég hafði samband við Hafdísi eftir á og spurði hvort að hún vildi ekki færa út í kvíarnar, okkur vantaði svona fyrir norðan. Hún tók eitthvað dræmt í það og spurði afhverju ég græjaði það ekki bara sjálf?“ María hefur verið þekkt fyrir að láta verkin tala, samanber þegar henni datt í hug að gera sögusýningu um berkla á Hælinu í Kristnesi og keyrði það verkefni alla leið með myndarskap. Það er því skemmst frá því að segja að hún tók gufumeistarann fyrir sunnan á orðinu og Sánuvagn Mæju er kominn í gagnið á Akureyri.
„Ég ætlaði að gera eins og Hafdís, en hún breytti hjólhýsi í fargufu,“ segir María. „En ég bakkaði svo út úr þeirri hugmynd, og tók eftir Litla Sauna Húsinu, líka starfrækt fyrir sunnan. Þar er samskonar fargufa og ég ákvað að fá mér. Það komast 12 manns inn.“
Þegar fimmtán mínútur eru liðnar inni í gufunni, fara gestirnir út og kæla sig eins og þeim þykir best.
María segir að það sé mesta 'kikkið' í því að fara í sjóinn á milli gusa.
Hressandi dagamunur í svita og heilsubót
„Ég held að þetta auki gleðina í hversdeginum,“ segir María, um gusuupplifunina. „Fólk er syngjandi kátt þegar það fer. Sum eru stressuð fyrst, en ég leiði fólk í gegnum þetta og þetta er ekkert mál. Aðal ögrunin er kannski í hitaþolinu. Ég hef ekki verið að fara upp í neitt svakalegt hitastig, og ég hef bara einu sinni lent í því að einhver upplifði ógleði, sem lagaðist fljótt. Fyrsta gusan er oft erfiðust, en í annað og þriðja sinn vill fólk kannski bara meiri hita. Ég er enn að læra á gufuna og prófa mig áfram með þetta.“
„Eitt sem ég vil nefna, er að það þarf að passa höfuðið,“ segir María. „Húðin er svo þunn ofan á höfðinu að það er rosalega gott að hafa húfu. Ég var að panta svona sánahúfur til að hafa til taks. Svo mæli ég með að vera með inniskó.“ Að lokum hvetur María Akureyringa og nærsveitafólk til þess að vera forvitið, fara út fyrir þægindarammann og prófa!
Í boði er að kaupa eitt og eitt skipti í Sánuvagni Mæju, klippikort eða einkagusu bara fyrir sinn hóp. Best er að skoða Facebook síðuna og pantanir eru gerðar þar.
Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera sánumeistari. Amk ekki í 20 metrum á sekúndu. Fuglarnir hafa eflaust getað gert sér þessar saltstangir að góðu.