Grófin og KAON í nýtt húsnæði Oddfellow?

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar á Íslandi hefur fest kaup á tveimur efstu hæðum hússins Glerárgötu 24 á Akureyri. Tilgangurinn að geta boðið almannaheillafélögum á svæðinu að leigja húsnæði fyrir hagstætt verð, með það í huga að sem mest af því fé sem félögin afla nýtist í starfsemi þeirra en fari ekki í að greiða háa húsaleigu.
KPMG á húsnæðið sem um ræðir og hefur verið þar með starfsemi í mörg ár.
Oddfellow hefur þegar boðið tveimur félögum aðstöðu í húsinu, Grófinni - geðverndarmiðstöð og Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis, KAON, sem bæði hafa verið í húsnæðisleit. Forráðamenn beggja félaga segja málið á frumstigi en eru mjög ánægðir með framtak Oddfellow og gera ráð fyrir að þiggja boðið.
Pálína Sigrún Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Grófarinnar og Þór Jónasson, formaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, voru nýbúin að skoða húsnæðið í fyrsta skipti þegar blaðamaður Akureyri.net ræddi við þau um tilboð Oddfellow.
Starfsemin yrði blómlegri
Um leigu til langs tíma yrði að ræða, líklega 10 ára til byrja með segir Pálína, sem væri afar jákvætt. Grófin yrði þá í allt annarri aðstöðu en hingað til. „Við myndum leigja fyrir mjög lágt verð og þannig yrði auðveldara að ráða fólk til félagasamtaka eins og Grófarinnar. Í því fælist mikið öryggi að komast í leigu hjá svona aðila, sem er í raun að gera þetta til þess að félögin fái sem mest út úr þeim fjármunum sem þau næla í. Það yrði auðveldara að gera framtíðarplön og skuldbinda sig, þannig að starfsemin hjá okkur yrði blómlegri.“
Hún telur mjög líklegt að húsnæðið henti starfseminni. „Ég held að hægt sé að gera húsnæðið þannig að það henti okkur mjög vel. Við höfum alltaf verið ein en gætum nú til dæmis haft sameiginlega fundaraðstöðu með Krabbameinsfélaginu.“
Gleðjumst mjög yfir þessu boði
„Mér finnst líklegt að við leitum allra leiða til þess að geta nýtt okkur þetta. Við þurfum að finna út úr því hvernig við nýtum húsnæðið sem best ásamt Grófinni; það er næsta verkefni að leggjast yfir það,“ sagði Pétur Þór Jónasson, formaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis við Akureyri.net.
KAON hefur leigt húsnæði norðar við Glerárgötu en þarf orðið meira rými en áður og leigusalinn þar einnig. „Við erum búin að vera í húsnæðisleit í eitt og hálft ár. Það hefur verið hrein eyðimerkurganga en þarna er augljóslega möguleiki fyrir okkur til að komast út úr því.“
Pétur átti eftir að kynna stjórn KAON málið og ræða við starfsfólkið. „Við gleðjumst mjög yfir þessu boði og skoðum það með jákvæðum huga ásamt Grófinni. Ég trúi því að þetta gangi allt saman upp.“