Fara í efni
Íþróttir

Gríðarlega svekkjandi tap Þórs/KA gegn Þrótti

Úr leik liðsins í síðustu umferð. Liðið mátti þola svekkjandi tap gegn Þrótti í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Þór/KA tapaði 2:1 gegn Þrótti í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir gerði mark Akureyrarliðsins. Sigurmark Þróttar kom í uppbótartíma seinni hálfleiks.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og fengu bæði liðin ágætis færi. Á 22. mínútu varð svo umdeilt atvik. Eftir hornspyrnu Þór/KA náðu heimakonur ekki að koma boltanum nægilega vel frá. Karen María átti þá skalla aftur inn á teig heimakvenna þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir fékk boltann og kláraði vel. Aðstoðardómarinn lyfti þó flaggi sínu og dæmdi rangstöðu. Við endursýningu virtist Hulda Ósk vera réttstæð, þótt sjónarhornið sé þannig að ekki er hægt að fullyrða það.

Eftir fjöruga byrjun róaðist leikurinn og ekki var mikið um færi. Staðan var markalaus þegar flautað var til leikhlés. Það sama var upp á teningnum í stórum hluta seinni hálfleiks, mikið var um baráttu en ekki var mikið um opin færi. En þegar leið á leikin fóru bæði lið að sækja meira og opnuðust varnir beggja liða.

1:0

Það var ekki fyrr en á 79. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom og voru það Þróttarar sem gerðu það. Katla Tryggvadóttir keyrði upp völlinn og náði að pota boltanum inn fyrir vörn Þórs/KA sem hafði opnast. Þar kom Tanya Laryssa Boychuk á ferðinni og náði að pota boltanum í netið.

_ _ _

1:1

Þrátt fyrir markið gast lið Þór/KA ekki upp og náðu þær að jafna metin á 84. mínútu leiksins. Sandra María Jessen fékk þá boltann á vinstri kantinum, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir fékk boltann frá Söndru og tók skot rétt utan við vítateiginn. Skotið var fast og Íris Dögg í marki Þróttar réði ekki við það. Markið var fyrsta deildarmark Kimberley fyrir Þór/KA.

_ _ _

2:1

Það stefndi allt í jafntefli en á 92. mínútu fengu Þróttarar hornspyrnu. Spyrnan var góð og kom innarlega inn á teig Þór/KA. Melissa í markinu náði ekki að kýla boltann nógu langt frá og boltinn fór beint á kolinn á Freyju Katrínu Þorvarðardóttur sem skallaði boltann í netið af stuttu færi.

_ _ _

Lokatölur 2:1 fyrir Þrótti og svekkjandi tap staðreynd. Eftir leikinn er Þór/KA liðið í 3. sæti deildarinnar áfram með 9 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Keflavík í Mjólkurbikarnum næsta laugardag.

Stöðuna í deildinni má sjá HÉR