Grenivík: útgáfuhóf og bókabúð opin í dag
Óvenjuleg og afar áhugaverð bókaverslun verður starfrækt á Grenivík þrjár klukkustundir síðdegis í dag og þar munu ungir rithöfundar lesa úr nýútkomnum bókum.
Rithöfundarnir ungu eru nemendur í 5., 6. og 7. bekk Grenivíkurskóla. Þeir hafa undanfarnar vikur skrifað bækur undir leiðsögn kennara sinna; hver nemandi skrifaði eina bók og að auki kemur út ein með viðtölum nemenda við fólk af eldri kynslóðinni.
„Þetta er einstakur viðburður sem á sér engan líkan í skólastarfi hér á landi,“ segir í auglýsingu frá skólanum í nafni bókaútgáfu sem kölluð er Þengilhöfði.
Nemendur lesa upp úr verkum sínum í dag á áðurnefndum viðburði sem verður í skólanum frá klukkan 16.00 til 19.00. Þeir bjóða einnig upp á tónlistaratriði og aðrar uppákomur. Bækurnar verða vitaskuld til sölu, einnig textaverk, tækifæriskort og jólamerkimiðar.