Greiða þarf fyrir bílastæði frá 4. apríl
Skylt verður að greiða fyrir notkun bílastæða í miðbæ Akureyrar frá og með næsta mánudegi, 4. apríl.
Undanfarnar vikur hafa verið aðlögunartími þar sem fólki hefur gefist kostur á að kynna sér fyrirkomulagið og tileinka sér notkun smáforrita sem hægt er að nota þegar fólk leggur bíl á fyrirfram skilgreindum svæðum í og við miðbæinn. Allar upplýsingar um breytt fyrirkomulag er að finna hér – á vefsvæði Bifreiðastæðasjóðs.
„Nokkra athygli hefur vakið að smáforritin sem notuð eru fyrir bílastæði í miðbæ Akureyrar leggja á sérstakt færslugjald þegar bílum er lagt í stæði til viðbótar við það sem rennur í Bifreiðastæðasjóð Akureyrarbæjar. Þessi gjöld eru til að standa undir rekstrarkostnaði fyrirtækjanna sem halda úti þessum smáforritum og eru þau sömu á Akureyri og í Reykjavík og sambærileg við það sem slík fyrirtæki innheimta í öðrum Evrópulöndum,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Stöðumælar eða smáforrit
„Í boði er að nota smáforritin Parka og EasyPark en bæði forritin bjóða fólki að velja á milli þess að greiða færslugjald í hvert sinn sem lagt er eða að greiða sérstakt mánaðargjald fyrir notkun á forritunum. Til viðbótar er í hvert skipti greitt stöðugjald Bifreiðastæðasjóðs sem er annaðhvort 100 krónur á klukkutíma eða 200 krónur á klukkutíma eftir svæðum,“ segir á vef bæjarins.
„Rétt er að vekja athygli á því að ekki er nauðsynlegt að nota smáforritin, heldur er það aðeins til hægðarauka. Þeir sem það kjósa geta notað stöðumæla sem settir hafa verið upp á þremur stöðum í miðbænum og sjást á meðfylgjandi mynd.“
Gjaldskráin er þessi:
- Bifreiðastæðasjóður: 100-200 kr. á klst. auk þjónustugjalda ef greitt er með smáforriti
- Stöðumælar: Ekkert færslugjald og ekkert mánaðargjald
- Parka: Færslugjald 86 kr. eða mánaðargjald 490 kr.
- EasyPark: Færslugjald 95 kr. eða mánðargjald 525 kr.
Munurinn á smáforritunum er helstur þessi, að því er segir á vef bæjarins:
- Parka Þú skráir þig inn þegar þú leggur en ekki er hægt að velja áætlaðan tíma í stæði. Þú þarft að muna að skrá þig út þegar þú ferð, annars greiðir þú til loka gjaldskyldutíma þess dags (kl. 16.00). Hægt er að fá áminningu um útskráningu eftir 1, 2 eða 3 klst.
- EasyPark Þú skráir þig inn þegar þú leggur og þarft að velja áætlaðan tíma í stæði. Þú getur skráð þig út ef þú ferð áður en áætlaður tími er útrunninn. Hægt er að fá áminningu 5-60 mínútum áður en valinn tími rennur út og hægt er að framlengja í smáforritinu.