Gönguleikur fyrir alla og verðlaun í boði!
Það eina sem er betra en að stunda útivist, er að stunda útivist og fá mögulega verðlaun fyrir það! Ferðafélag Akureyrar hefur undanfarin 14 ár staðið fyrir gönguleik sem félagið kallar Þaulinn.
Leikurinn felst í því að félagar í FFA hafa komið fyrir kössum á þekktum gönguleiðum þar sem hægt er að nálgast keppnisgögn. Þegar fólk hefur farið á stöðvarnar og leyst þrautir á hverjum stað er þáttökublaði skilað inn á skrifstofu FFA og verðlaunahafar verða dregnir út.
Leikurinn hentar ungum sem öldnum, en það eru mismunandi þáttökublöð fyrir fullorðna og börn. Leikurinn skiptist í tvo flokka, fullorðins- og 12 ára og yngri. Fimm stöðvar þarf að heimsækja til þess að uppfylla þáttökuskilyrði fullorðinna og þrjár stöðvar fyrir krakkaflokkinn.
Á heimasíðu FFA segir að tilgangur leiksins sé að kynna Eyfirðingum og öðrum landsmönnum útivistarmöguleika svæðisins fyrir alla fjölskylduna. Í verðlaun verða útivistarvörur og FFA heldur leikinn í samstarfi við nokkrar stofnanir og fyrirtæki á svæðinu. Til að eiga möguleika á vinningi þarf að skila útfylltu og götuðu svarblaði á skrifstofu Ferðafélags Akureyrar. Lokafrestur til að skila inn svarblaði er 20. september 2024.
Á hverri stöð eru gögn frá FFA; kassi með plastumslagi og gestabók. Ef gestabók er fyrir á staðnum þá er plastumslagið að finna í kassa hjá gestabókinni. Í umslaginu er gatari, kort og leyniorð eða þraut sem á að skrifa á svarblaðið. Áætlaður göngutími er aðeins viðmið, hann fer eftir hverjum og einum og aðstæðum hverju sinni.
HÉR eru allar upplýsingar um leikinn og þáttökublöð til útprentunar, upplýsingar um hvar stöðvarnar eru staðsettar og um hverja leið fyrir sig.
Staðirnir fimm sem þarf að heimsækja. Aðeins þrjá þarf að heimsækja til þess að keppa í krakkaflokki. Mynd: Heimasíða FFA