„Göngugatan“ þolir vart meiri bílaumferð

Ástand þess hluta Hafnarstrætis á Akureyri sem í daglegu tali er nefndur Göngugatan er orðið það slæmt vegna skemmda að gatan þolir vart meiri bílaumferð. Ekki er lengur hægt „að viðhalda umferð á henni án umfangsmikilla viðgerða,“ eins og það er orðað í minnisblaði sem unnið var fyrir umhverfis- og mannvirkjaráð og lagt var fram á fundi ráðsins í síðustu viku.
- Frumáætlun um kostnað við viðgerð götunnar hljóðar upp á 250 milljónir króna, en endanleg tala ræðst af ákvörðun um umferð og notkun svæðisins.
- Ekki er gert ráð fyrir fjármagni í það verkefni í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2025-2028 að því er fram kemur í fundargerð ráðsins.
- Umhverfis- og mannvirkjaráð beinir því til skipulagsráðs að taka tillit til ástands götunnar við ákvörðun um lengd sumarlokunar hennar og draga þannig úr umferð bifreiða.
- Göngugatan var endurnýjuð 1982 með snjóbræðslukerfi og hellulögn og vert að vekja athygli á því að þá var hún hönnuð eingöngu sem göngugata. Um er að ræða spottann á milli Kaupvangsstrætis og Ráðhústorgs.
Syðsti hluti göngugötunnar. Þar eru pollar sem var hægt að hækka í því skyni að loka götunni en þeir eru ónýtir. Myndir: Skapti Hallgrímsson
Bílaumferð leyfð um aldamótin
Bílaumferð var leyfð um götuna um aldamótin og ekið á hellunum, en árið 2009 var hellulögnin fjarlægð og malbikað í staðinn þar sem hellurnar voru ónýtar og höfðu skemmt snjóbræðslukerfið. Nú er ástand götunnar aftur komið í sama horf og orðið svo slæmt að ekki er lengur hægt að viðhalda snjóbræðslukerfinu. Það er farið að skemmast þar sem hellur hafa þynnst og losnað vegna mikillar umferðar og aldurs.
Hækkanlegir pollar eru ónýtir, malbikið sprungið og holótt. Hellur eru byrjaðar að gliðna í sundur og losna vegna mikillar umferðar. Þar sem hellurnar eru þegar orðnar skemmdar munu þær áfram valda skemmdum á snjóbræðslurörum ef ekkert verður að gert.
Myndir: Skapti Hallgrímsson
Hellurnar í götunni eru allar að losna, orðnar þunnar og sprungnar. Þær liggja beint á snjóbræðslurörum og enginn sandur lengur á milli hellanna og röranna, sem eykur hættuna á frekari skemmdum. Þarna er enginn sandur til staðar og hellurnar liggja beint ofan á snjóbræðslurörunum sem skemmast þar af leiðandi stöðugt meira þar sem bílaumferð er um götuna.
Hilda Jana Gísladóttir, S-lista, Ingimar Eydal, B-lista, og Halla Birgisdóttir Ottesen, F-lista, bókuðu um þetta mál á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs þar sem þau segja löngu tímabært að fara í allsherjar endurbætur á göngugötunni og Ráðhústorgi á grundvelli heildarsýnar, fremur en að neyðast í sífelli til að fara í minniháttar lagfæringar. Þau segja jafnframt miður að ekki sé gert ráð fyrir því nauðsynlega fjármagni í það verkefni í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins á árunum 2025-2028.
Hér sjást vel þær skemmdir sem um er fjallað. Myndirnar eru úr minnisblaðinu sem tekið var fyrir í umhverfis- og mannvirkjaráð.
Hanna þarf hryðjuverkalokun og fleira
Í minnisblaðinu er listi yfir nauðsynlegar endurbætur og mögulega áfangaskiptinu framkvæmda.
- Skipta þarf um yfirborðsefni og snjóbræðslurör til að tryggja langtímaendingu götunnar.
- Endurnýja þarf lýsingu og rafmagnskapla við Ráðhústorg, þar sem stærsti hluti ljósa er óvirkur og ljósin ónýt.
- Pollar (hækkanlegir) eru ónýtir, og malbikið er orðið sprungið og með holum.
- Hanna þarf löglega lokun á svæðinu sem uppfyllir öryggiskröfur, þar á meðal hryðjuverkalokun, eins og það er orðað í minnisblaðinu.
Áætlaður kostnaður:
- Kostnaður við að fjarlægja hellur, endurnýja snjóbræðslu og leggja nýtt yfirborð fer eftir valinu á yfirborðsefni.
- Meðalkostnaður er um 50.000 kr. á fermetra.
- Heildarstærð svæðisins er um 5.000 fermetrar.
- Frumáætlun um kostnað er um 250 milljónir kr., en endanleg tala ræðst af ákvörðun um umferð og notkun svæðisins.
Myndir úr minnisblaðinu sem sýna skemmdir á malbiki, hellum og pollum.
Mynd: Skapti Hallgrímsson
Mynd: Skapti Hallgrímsson