Fara í efni
Mannlíf

„Góður grunnur er límið í fatastílnum“

Hanne hefur unnið í tískubransanum alla sína tíð. Í Danmörku starfaði hún sem stílisti og kom að ýmsum verkefnum, m.a. fyrir sjónvarpsstöðina TV2. Þá rak hún lengi vel sína eigin tískuvöruverslun í Óðinsvéum. Hún hefur búið á Akureyri í þrjú ár.

Stílistinn Hanne Jacqueline Tarnow aðstoðar konur við að byggja upp sinn persónulega stíl. Auk þess að reka tískuvöruverslun á Akureyri vinnur hún einnig að sínu eigin stílistasmáforriti sem tilbúið verður í mars.

Akureyri.net heimsótti Hanne i verslunina My Little Showroom sem hún rekur ásamt mágkonu sinni Fjólu Tarnow. Hanne hefur starfað í tískubransanum alla sína tíð en vinnan er hennar ástríða. Áður en hún flutti til Akureyrar fyrir þremur árum starfaði hún sem stílisti í Danmörku, hélt þar námskeið og þá rak hún sína eigin tískuvöruverslun í Óðinsvé, svo fátt eitt sé nefnt.

 

Stíliseringasmáforrit í vinnslu

Verslunarreksturinn á Akureyri er þó bara eitt af verkefnum Hanne, því þessa dagana er hún að leggja lokahönd á eigið smáforrit. Þetta er stíliseringaforrit þar sem konur fá hjálp til þess að byggja upp sinn fataskáp, hjálp við að kaupa inn í hann og finna sinn persónulega stíl. Þar er líka hægt að fá góð ráð varðandi hverju skal pakka í töskuna þegar ferðalag er framundan og svo verður hægt að fá fullt af innblæstri frá mismunandi konum vítt og breytt um heiminn. Ég er í sambandi við virkilega spennandi konur sem eru allar með mjög ólíka stíla, en ef það er eitthvað sem við allar elskum þá er það að fá innblástur hver frá annarri, segir Hanne. Áætlað er að forritið fari í loftið þann 4. mars.


Hanne býður upp á persónulega stílistaaðstoð í My Little Showroom en hún vinnur einnig að smáforriti sem aðstoðað getur konur við að byggja upp eigin stíl. 

Hatar hvítar leggins

Þegar Hanne er beðin um að gefa lesendum Akureyri.net nokkur góð ráð varðandi fatastílinn stendur ekki á svari. Fyrst og fremst þarf grunnurinn í fataskápnum að vera góður, því ef ákveðnar grunnflíkur eru til staðar í skápnum má auðveldlega blanda öðrum flíkum við. Grunnurinn í fataskápnum er límið í þínum stíl. Ef þú ert að byggja hús þá byrjar þú á grunninum, þú byrjar ekki á því að setja blóm í vasann því þá veltur vasinn. Svo til þess fá sterkan fataskáp getur verið gott að byggja hann upp út frá ákveðnum grunnflíkum, en það getur líka verið mismunandi hvað okkur finnst vera nauðsynlegur grunnur, segir Hanne, en hér fyrir neðan er listi yfir átta flíkur sem Hanne finnst nauðsynlegt að allar konur eigi í sínum skáp. En er eitthvað sem er alveg bannað? Ég hata hvítar leggings með stuttum bol. Það klæðir enga konu. Það er versti fatnaður sem hefur verið fundinn upp. Appelsínuhúð og allt annað sést í gegn um hvítar leggins, segir Hanne og er ekkert að skafa utan af skoðun sinni á því að hvítar leggings séu hræðilegur fatnaður. Sem betur fer sér maður hvítar leggings ekki oft hér á Íslandi, þær eru vinsælli erlendis.

 

Góður grunnur að fataskáp að mati Hanne:

  • Gallabuxur í góðu sniði
  • Svartar buxur
  • Stíf hvít skyrta
  • Blazer jakki
  • Stuttermabolur
  • Svartur þröngur kjóll
  • Hneppt golla
  • Leðurbuxur (hentar ekki öllum en ómissandi að mati Hanne)