Fara í efni
Mannlíf

Góðir ferðafélagar á fjallatinda Gjögraskaga

Haustkyrrðin og dýrðin algjör allt um kring. Neðar er Syðridalur og Selfjall með forsælu, segir með þessari mynd í nýju bókinni. Hágöng fjær, Tjörnes og Melrakkaslátta.

Nýverið komu út tvær bækur eftir göngugarpinn Hermann Gunnar Jónsson þar sem segir frá fjallgöngum, annars vegar á austanverðum Gjögraskaga/Flateyjarskaga, hinsvegar um Gjögraskaga, vestan Flateyjardals inn fyrir Víkurskarð.

Bókin Kinnar- og Víknafjöll – með mínum augum er glæný en hin, Fjöllin í Grýtubakkahreppi er önnur prentun bókar sem kom út 2016 og var löngu uppseld.

Naustavík. Naustavíkurá rennur niður í Naustavíkurfjöru. Kambur er sunnan fjörunnar og yfir gnæfir Bakrangi.

Bækurnar eru báðar ríkulega myndskreyttar, auk þess sem í þeim er fjöldi korta, GPS-hnit og ferlar til glöggvunar og í Kinnar- og Víknafjalla bókinni er QR-kóði af gönguleiðum til stuðnings. Afar fróðlegar og skemmtilegar báðar tvær og án efa afbragðs ferðafélagar þeirra sem ætla að ganga á þessum slóðum.

Gönguskarð, á leiðinni frá Engjafjalli um Stóruöldu austur á Granastaðanípu

„Sveitastrákur að upplagi og kann útivist vel,“ segir um höfundinn á bókarkápum. „Hann ólst upp við hefðbundin landbúnaðarstörf á Hvarfi í Bárðardal og þekkir vel að snúast í kringum kindur bæði á hesti og fæti. Auk þess hefur hann gjarnan brúkað báða þessa ferðamáta til að ferðast um landið og njóta, sérstaklega Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Í seinni tíð hafa fjallgöngurnar þó haft yfirráðin.“

Persónuleg ferðasaga

„Bókin er persónuleg ferðasaga mín á alla fjallatinda á austurhluta Gjögraskaga/Flateyjarskaga borin á borð með texta, ljósmyndum og landakortum,“ segir Hermann Gunnar um bókina Kinnar- og Víknafjöll með mínum augum. „Þó von mín sé að öðrum geti nýst er hér eingöngu unnið út frá eigin duttlungum og hentugleika. Bókin er nokkurs konar framhald bókar minnar Fjöllin í Grýtubakkahreppi sem kom út vorið 2016.“

Í fyrri bókinni sagði Hermann Gunnar frá gönguferðum sínum á fjallatinda í Grýtubakkahreppi á vestanverðum Skaganum, rúma 100 talsins.

„Í kjölfar þess að ljúka við Grýtubakkahreppsfjöllin sá ég fyrir mér að gaman væri að ganga á öll hin fjöll skagans sem flest tilheyra Kinnar- og Víknafjöllum. Ef þetta gengi eftir hjá mér mátti hugsa sér möguleika á annarri bók ef í manni ypði einhver dugur og líkur á sæmilegri útkomu,“ segir höfundurinn.

Fyrir botni Ytridals rís Þverárhnjúkur. Í afvikinu norðan hans eru Jökulbrekkur, hálf-ill gönguleið yfir í Kaðaldal í Hvalvatnsfirði. Þvergil heitir niður úr Jökulbrekkum. Olnbogi er þar sem bugða er á ánni í forsælunni og dalurinn hækkar. Stórhæð er í miðjum dalnum og þar framan við eru Fletir. Hánefur til vinstri, Mosahjúkur til hægri.

Tíminn leið. Hann hafði engin tímamörk á verkefninu en talsvert var gengið til fjalla, segir Hermann Gunnar, sérstaklega sumarið 2021 og 2022 og þá um haustið voru fáir toppar eftir. „Þá fannst mér lag að setja niður fyrir mér hvort ég eitthvað að hugsa um bók og allt sem því tilheyrir.“

Hann lét sem betur fer til skarar skríða því útkoman er afar glæsileg, sem fyrr segir.

Hánefur 755 m hár skilur að Syðri- og Ytri-Brettingsstaðadal

Fjöllin í Grýtubakkahreppi
Í fyrri bókinni segir Hermann Gunnar frá göngum á fjallatinda og í fjallaskörð á Gjögraskaga vestan Flateyjardals

Bókin er tvískipt. Annars vegar eru ferðasögur höfundar á alla fjallatinda í Grýtubakkahreppi, nokkurs konar dagbókarbrot. Hins vegar er um að ræða 13 gönguleiðalýsingar á valin föll á svæðinu, tvær leiðir yfir á Flateyjardal um Skriðurnar og Sandskarð, auk þess sem lýst er hringnum frá Grenivík um Trölladal, Fjörður og Látraströnd.

Sitjandi á vesturbakka Dalsár í 22 stiga hita, í sunnan þey og horfandi á dagsverkið, allavega uppgönguöxlina, var unaður einn, segir með þessari mynd í bókinni.