Glóandi pensilstrokur á málverki himinsins
Glitský, eða perlumóðurský, svífa hærra yfir jörðu en venjuleg ský. Með sína björtu pastelliti, sem blandast í glóandi pensilstrokum á hvolfið, minna þessi ský okkur á að við búum á Norðurhveli.
Undanfarna tvo daga höfum við notið þess, á Norðurlandi, að sjá þessa glitrandi gesti. Nicole Kristjánsson, sem starfar í miðbænum á Akureyri, stóðst ekki mátið og skaust út með myndavélina í dag. Hún býður til þessarar glæsilegu myndaveislu.
Við upplifum glitský ekki sem mjög sjaldgæf, enda sjáum við þau yfirleitt nokkrum sinnum á hverjum vetri. En sannleikurinn er sá, að þau eru sjaldgæf, og Ísland er einn af þeim stöðum sem algengast er að sjá þessi fögru málverk himinsins.
Skýin sem við blótum gjarnan, fyrir það að skyggja á þessa litlu sól sem við fáum þó að sjá yfir veturinn, eru í um það bil 10 km hæð. Glitskýin verða til í heiðhvolfinu. Í 15-30 km hæð.
HVAÐ ERU GLITSKÝ?
Á vef Veðurstofunnar eru þessar upplýsingar:
Glitský myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu (um eða undir -70 til -90 °C), og eru úr ískristöllum, eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum (t.d. HNO3.3H2O). Þessi síðarnefndu ský geta valdið ósóneyðingu, en yfirborð ískristallanna getur virkað sem hvati í efnaferli þar sem klór í heiðhvolfinu breytist í skaðleg ósóneyðandi efni (t.d. klór-mónoxíð ClO).
Kristallarnir í skýjunum beygja sólarljósið, en mismikið eftir bylgjulengd þess. Þannig beygir blátt ljós meira en rautt. Rauða ljósið kemur því til okkar undir öðru horni en það bláa, þannig að við sjáum það koma frá öðrum hluta glitskýsins. Litaröðin frá jaðri inn til miðju skýsins er stundum eins og vísuorðin: gulur, rauður, grænn og blár en oft er skýið einnig hvítt í miðju. Litirnir eru líka háðir stærðardreifingu agna í skýjunum, þannig að oft má sjá rauða, gula og græna flekki í bland.