Gleði og litadýrð á öskudaginn – MYNDIR

Gleðin var við völd á Akureyri í gær eins og venjulega á öskudaginn. Börn bæjarins gerðu víðreist eins og hefð er fyrir, sungu eins víða og mögulegt var í skiptum fyrir sælgæti eða annan glaðning. Þegar nær dró hádegi lá straumurinn í verslunarmiðstöðina Glerártorg þar sem fjöldi var saman kominn, börnin hlýddu á skemmtiatriði og tóku svo þátt í því að slá „köttinn“ sleginn úr tunnunni með tilþrifum.
Öskudagurinn stendur á gömlum merg í höfuðstað Norðurlands. „Börn á Akureyri hafa haldið þennan dag hátíðlegan hálfa aðra öld, upphaflega að danskri fyrirmynd, enda Akureyri upphaflega danskur bær þar sem töluð var danska á sunnudögum,“ skrifaði Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri, í grein sem Akureyri.net birti á öskudaginn 2021. Greinin er sígild og því full ástæða til að benda á hana.
Mynd: Rakel Hinriksdóttir
„Jón Hjaltason sagnfræðingur skrifar um öskudaginn og bolludaginn víða í Sögu Akureyrar og segir frá því, að elsta áreiðanlega dæmið um að slá köttinn úr tunnunni (sem að vísu oftast var dauður hrafn) sé frá árinu 1867, en framan af hafi sá siður verið bundinn mánudegi í byrjun föstu,“ segir Tryggvi. „Lengi framan af var fátítt að halda öskudaginn hátíðlegan annars staðar á landinu, en nú hefur siðurinn verið tekinn upp víða um land. Með öskudegi hefst langafasta eða sjö vikna fasta í kaþólskum sið. Öskudagur er ávallt á miðvikudegi sjö vikum fyrir páska og heitir á dönsku og norsku askeonsdag, á ensku Ash Wednesday og á þýsku Aschermittwoch.“
Grein Tryggva Gíslasonar: Þjóðhátíðardagur Akureyringa – Öskudagurinn