Fara í efni
Mannlíf

Glaðar vinkonur eftir viðbrögð Ásthildar

Tvær 11 ára vinkonur í Glerárhverfi, Birta Kristín og Karítas Alda, tóku til sinna ráða á dögunum vegna hættu sem skapaðist í brekku í  Sunnuhlíð þar sem þær renna sér oft. Vinkonurnar skrifuðu Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra bréf og glöddust innilega þegar svarbréf bæjarstjórans barst þeim og vegna þess að starfsmenn bæjarins höfðu tekið sig til og lagað girðingu til bráðabirgða svo nú er engin hætta á ferðum lengur.

Stelpurnar renna sér mikið í brekkunni í Sunnuhlíð ásamt vinum sínum en stóð ekki á sama vegna þess að netgirðing neðst í brekkunni var orðin svo léleg að krakkarnir runnu oft út á götu. Þeim fannst það vitaskuld ekki heppilegt, skrifuðu þess vegna bæjarstjóranum bréf og bentu á að laga þyrfti girðinguna – og komu því að í leiðinni að þær væru til í nýjan leikvöll við Glerárskóla.

Stelpurnar skrifuðu á fallegt bréfsefni og skreyttu með hjörtum, héldu síðan í Ráðhúsið og afhentu starfsmanni í afgreiðslunni bréf til bæjarstjórans. Nokkrum dögum síðar kom „póstur inn um lúguna með þessu dásamlega bréfi frá bæjarstjóranum okkar, vá hvað það gladdi mikið,“ skrifar móðir annarrar stúlkunnar á Facebook og bætir við að girðingin sé orðin fín og vinkonurnar séu glaðar og stoltar að á þær hafi verið hlustað. Dásamlegt sé að bæjarstjórinn „skyldi gefa sér tími í að hafa upp á þeim og skrifa þeim svarbréf.“

Bréf bæjarstjórans var svohljóðandi:

Kæra Birta og Karitas. Takk fyrir bréfið og góða ábendingu. Nú er verið að vinna í leiksvæði við Glerárskóla en það verður gert í áföngum. Takk fyrir að láta okkur vita með brekkuna. Starfsmenn Umhverfismiðstöðvar fóru og löguðu til bráðabirgða en ætla að gera betri lagfæringu seinna. Fariði samt varlega þegar þið eruð að renna ykkur.

Kærar þakkir fyrir fallegt bréf og gleðileg jól.

Ykkar bæjarstjóri, Ásthildur Sturludóttir