Fara í efni
Mannlíf

Gistihúsið Reynihlíð en ekki „Langavitleysa“

Margir bíða spenntir eftir gömlu myndinni sem Akureyri.net birtir alla föstudagsmorgna í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Viðbrögð eru mikil og safninu hafa borist einhverjar upplýsingar um lang flestar þeirra 227 mynda sem hér hafa birst. Til þess er einmitt leikurinn gerður, að næla í upplýsingar fyrir safnið, auk þess að gleðja lesendur og hvort tveggja hefur tekist með ágætum.

Lesendur senda gjarnan upplýsingar í pósti til Harðar Geirssonar á Minjasafninu eða til ritstjóra Akureyri.net. Myndunum er alltaf deilt á Facebook síðunni Gamlar ljósmyndir og þá skapast oft mjög líflegar umræður; stundum hittir fólk naglann á höfuðið í fyrstu tilraun en oft liggur niðurstaða ekki fyrir fyrr en að loknum töluverðum vangaveltum.

Myndin hér að ofan, sem er númer 224 og birtist 21. febrúar, er skemmtilegt dæmi. Fljótlega eftir að hún var birt bárust nokkrar ábendingar, sú helsta að myndin væri tekin við Hríseyjargötu 21 á Akureyri, hús sem gjarnan var kallað Langavitleysa. Ekki voru þó allir sannfærðir.

Fyrir helgi barst svo póstur frá manni sem sagði þá tilgátu fjarri lagi og færði góð rök fyrir máli sínu.

„Ég var að skoða gömlu myndina á akureyri.net þar sem giskað er á að húsið sé svokölluð Langavitleysa. Það er held ég sé fjarri öllu lagi,“ sagði í pósti til Minjasafnsins. „Myndin er tekin í Reykjahlíð einhvern tíman milli 1940 til 50, horft til austurs. Húsið er það sem þá var Gistihúsi Reynihlíð, af því húsi eru til fjölmargar myndir á söfnum og meðal annar ein hjá ykkur,“ sagði í pósti til Minjasafnsins. 

Húsið sem um ræðir stendur enn austan við Hótel Reynihlíð, sem seinna varð Icelandair hótel en er nú hluti Berjaya hótelkeðjunnar.

GÖMLU MYNDIRNAR

Mynd af umræddu húsi, Gistihúsinu Reynihlíð, sem er að finna í gagnasafninu Sarpi.