Geymsla bílhræja – betur má ef duga skal
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur enn til umfjöllunar og úrlausnar mál er varða slæma umgengni og aðfarir við geymslu bílhræja og annars álíka á starfssvæði nefndarinnar. Þrír staðir koma þar einkum við sögu, Setberg á Svalbarðsströnd, Hamragerði 15 á Akureyri og athafnasvæði Skútabergs ehf. á Moldhaugahálsi.
Akureyri.net hefur áður fjallað um mál heilbrigðisnefndarinnar gegn lóðarhafa að Hamragerði 15 og bílapartasölunni Auto ehf. vegna geymslu bílhræja, yfirfullrar lóðar og svo í framhaldinu þegar skráðir og óskráðir bílar á vegum sömu aðila tóku að birtast hér og hvar um bæinn við litla hrifningu bæjaryfirvalda. Meðal þess sem komið hefur fram í athugasemdum þegar slíkar fréttir birtast og þeim deilt á samfélagsmiðlum eru ábendingar um að sama skuli ganga yfir fleiri og þá bent á athafnasvæði Skútabergs á Moldhaugahálsi.
Bæta þarf ásýnd á Moldhaugahálsi verulega
Skútaberg og umgengni á athafnasvæði fyrirtækisins á Moldhaugahálsi kom einmitt til umræðu á fundi heilbrigðisnefndarinnar í lok júní. Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að nokkuð hafi borið á kvörtunum vegna umgengninnar. Fyrirtækið var með bréfi þann 12. júní hvatt til að taka rækilega til á svæðinu og koma hlutum sem ekki hafa varðveislugildi í viðeigandi förgun. Þá segir að í svari Skútabergs komi fram að framkvæmdir við gerð geymslusvæðis geti hafist þegar hönnunargögn hafi verið samþykkt af skipulagsnefnd og jafnframt að tekið verði til á svæðinu í sumar.
Athafnasvæði Skútabergs ehf. á Moldhaugahálsi í Hörgársveit norðan Akureyrar. Mynd: Þorgeir Baldursson
Í bókun nefndarinnar segir meðal annars: „Að mati heilbrigðisnefndar þarf að bæta ásýnd svæðisins verulega. Þess vegna er mikilvægt að útbúið verði vandað, varanlegt geymslusvæði og að þeim hlutum sem ekki hafa varðveislugildi verði komið í viðeigandi förgun sem allra fyrst. Þá þarf að ganga úr skugga um að hlutir sem geymdir eru á svæðinu valdi ekki mengun í umhverfinu t.d. vegna fokhættu, olíu eða annarra spilliefna. Þá óskar nefndin eftir því að verða upplýst reglulega um það hvernig framkvæmdum við tiltekt á svæðinu og gerð varanlegs geymslusvæðis miðar.“
Vikulegir reikningar vegna dagsekta
Eins og áður hefur komið fram samþykkti heilbrigðisnefndin að leggja á dagsektir að upphæð 20 þúsund krónur á dag frá því í lok febrúar vegna umgengni á lóðinni að Hamragerði 15 á Akureyri. Reikningar vegna dagsektanna hafa verið sendir út vikulega í kjölfar skoðunar á lóðinni. Við reglulega skoðun þann 18. júní „kom í ljós að nokkuð hafði áunnist varðandi tiltekt og hafði bílum innan lóðarmarka fækkað umtalsvert,“ segir í bókun nefndarinnar.
Þann 26. júní samþykkti nefndin að fresta frekari álagningu dagsekta þar sem ástand lóðarinnar hafi lagast umtalsvert. „Enn er þó nokkuð í land og er lóðarhafi hvattur til þess að ljúka tiltekt á lóðinni sem allra fyrst þannig að ekki þurfi að koma til frekari aðgerða af hálfu heilbrigðisnefndar. Jafnframt vekur nefndin athygli á því að óinnheimtar dagsektir sem lagðar eru á fram að efndadegi falla ekki niður þótt aðili efni viðkomandi kröfu,“ eins og segir í bókun ráðsins.
Heimild var veitt til tímabundinna afnota af svæði í Ytra-Krossanesi. Mynd tekin 25. júní. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Frestur til 1. ágúst að Setbergi
Akureyri.net greindi frá því í lok júní að Akureyrarbær hafi gert samning við bílapartasöluna Auto ehf. á Svalbarðsströnd um tímabundin afnot í Ytra-Krossanesi gegn því að eigandinn fjarlægði bíla af lóðum og lendum Akureyrarbæjar og kæmi annaðhvort í förgun eða í sölu. Þar kom hins vegar einnig fram að samningurinn fæli ekki í sér leyfi til að koma með bíla frá öðrum sveitarfélögum á umrætt svæði í Ytra-Krossanesi.
Seint í apríl samþykkti heilbrigðisnefndin að veita fyrirtækinu frest til 1. júní til að taka til á lóð sinni og fjarlægja bíla og lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Nefndin ítrekaði þá jafnframt þau tilmæli að ökutæki í eigu og umsjón Auto ehf. yrðu geymd á til þess ætluðum svæðum á vegum fyrirtækisins. Fram kemur í fundargerð nefndarinnar frá 26. júní að fyrirtækið hafi þá komið fyrir á þriðja tug bíla á áðurnefndu svæði í Ytra-Krossanesi, auk þess sem kominn sé brotajárnsgámur frá Hringrás að Setbergi á Svalbarðsströnd sem notaður verði við upphreinsun á lóðinni. Heilbrigðisnefndin samþykkti því að veita Auto ehf. viðbótarfrest til 1. ágúst til að ljúka hreinsun á lóðinni að Setbergi og fjarlægja bíla og aðra lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Verði ekki brugðist við fyrir þann tíma muni nefndin beita viðeigandi þvingunarúrræðum í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir í þeim tilgangi að knýja fram úrbætur.