Geðheilbrigði – Ert þú með lausa skrúfu?
Oft grínast fólk sem glímir við andleg veikindi með að þau séu með lausa skrúfu, jafnvel fleiri en eina. Hugmyndin að nafni á vitundarvakningu til að auka meðvitund fólks um að gæta vel að andlegri heilsu, efla forvarnir og minnka fordóma gagnvart andlegum veikindum, er einmitt sótt í þetta saklausa grín.
„Þó maður sé búinn að vera með tilfinningar allt sitt líf þýðir það ekki að maður sé sérfræðingur í þeim. Þannig að maður þarf svolítið að kynna sér málið og þess vegna viljum við vera eins aðgengileg og mögulegt er,“ segir Sonja Rún Sigríðardóttir, starfsmaður Grófarinnar – Geðræktar á Akureyri sem er ein margra sem koma að vitundarvakningunni um mikilvægi geðræktar sem verið er að hleypa af stokkunum á morgun og nefnist einmitt Lausa skrúfan.
Verkefnið Lausa skrúfan verður kynnt á Glerártorgi á Akureyri á morgun, á alþjóða geðheilbrigðisdaginn, 10. október. Þar verða þátttakendur Grófarinnar með bás frá klukkan 12.00 til 18.00. Þá verður hægt að kynna sér verkefnið betur og fagna geðheilbrigðisdeginum, og hlusta á tónlistarmanninn Ívar Helgason flytja góða tónlist og sjá Salsa-north dansa geðræktar salsa.
Sonja Rún Sigríðardóttir, starfsmaður Grófarinnar – Geðræktar á Akureyri, til vinstri, og framkvæmdastjórinn, Pálína Sigrún Halldórsdóttir.
Vinna gegn fordómum, eigin og annarra
Pálína Sigrún Halldórsdóttir, iðjuþjálfi og framkvæmdastjóri Grófarinnar – Geðræktar, segir það eitt af markmiðum Grófarinnar að vinna gegn fordómum, veita upplýsingar og fræðslu. „Lausa skrúfan kemur inn í það að við þurfum öll að vita hvað Grófin – Geðrækt er, eða úrræði eins og Grófin. Fyrir hvað það stendur og hverjir og hvernig er hægt að nýta þau úrræði sem hér eru. Það hefur vantar að mínu mati, vitundarvakningu hér á landsbyggðinni um geðrækt, athyglin er svolítið mikið í höfuðborginni, þar er fullt af úrræðum en það eru líka úrræði úti á landi og við þurfum að gera þeim hærra undir höfði,“ segir Pálína og bætir við: „Ég hef náttúrlega heyrt marga segja að Grófin hafi bæði bjargað lífi þeirra og líka bara breytt öllu, af því að hér er svo mikið stuðningsnet, hér finnur þú að þú megir vera þó þér líði illa, þú einhvern veginn þarft ekki að fela þig og þannig máttu sleppa grímunni. Það auðveldar fólki að sættast við það að vera að glíma við eitthvað sem það er búið að vera að fela og þá verður allt svo miklu auðveldara, úti í samfélaginu líka,“ segir Pálína og hvetur fólk að kynna sér Lausu skrúfuna.
Vitundarvakning og fjáröflun
Lausa skrúfan er vitundarvakning en henni er einnig ætlað að vera fjáröflun til að styrkja rekstur Grófarinnar Geðræktar sem er eina opna geðræktin á Norðurlandi. Takist það verður lögð áhersla á að mæta brýnni þörf á valdeflandi úrræðum fyrir fólk með geðraskanir á öllu Norðurlandi. Í því gæti falist að veita styrki til verkefna á sviði geðræktar á svæðinu.
Þess má að lokum geta að febrúar verður mánuður Lausu skrúfunnar.
Hægt er að lesa meira um Lausu Skrúfuna á síðunni okkar, www.lausaskrufan.is