Fara í efni
Fréttir

Gaza getur ekki beðið lengur – kröfuganga

Kröfuganga og mótmælafundur til stuðnings Palestínu verður á Akureyri á morgun, laugardaginn 22. mars. Gangan hefst við Akureyrarkirkju kl. 14 þaðan sem gengið verður niður tröppurnar og norður göngugötuna að Ráðhústorgi þar sem fluttar verða ræður um þetta mikilvæga og aðkallandi málefni. Meðlimir í félaginu Ísland-Palestína standa fyrir kröfugöngunni. 

Ísrael hefur brotið vopnahléið sem komið var á fyrir nokkru og aftur hafið árásir á Gaza með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúana þar. Inntakið í kröfugöngunni og mótmæla fundinum er að innantóm orð og fordæmingar geti ekki stöðvað þjóðarmorðið sem Ísrael fremur á Palestínumönnum heldur þurfi aðgerðir til. 

Í texta með viðburðin á Facebook segir meðal annars.

Ríkisstjórn Íslands verður að grípa til aðgerða!

Innantóm orð og fordæmingar munu ekki stöðva þjóðarmorðið sem nú er komið aftur á fullt skrið, þar sem tugir bætast við tölu látinna á hverri klukkustund. Börn á Gaza eru þegar svelt og nú sprengd í tætlur af Ísraelsher, þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð eru í fullum gangi og rædd fyrir opnum dyrum í Ísrael og Bandaríkjunum. Allar ályktanir SÞ, allir bráðabirgðaúrskurðir Alþjóðadómstólsins og allar fordæmingar alþjóðasamfélagsins eru hunsaðar af ráðamönnum í Ísrael og Bandaríkjunum. Allur heimurinn, þar á meðal Ísland, verður að beita sér til að stöðva þetta tafarlaust með því að koma á efnahagslegum og pólitískum refsiaðgerðum gagnvart Ísrael. Ísland á einnig að styðja kæru Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot á þjóðarmorðslögum til Alþjóðadómstólsins í Haag.

„Ást og kærleikur“ eins og Inga Sæland félagsmálaráðherra sagðist ætla að senda börnunum á Gaza er gagnslaus án aðgerða!
 
Við skorum á ríkisstjórnina að standa við þau fyrirheit sem hún gaf áður en hún komst til valda og að grípa til aðgerða!
 
Á laugardaginn höldum við kröfugöngu til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda, við ætlum að vera sýnileg fyrir fólkið okkar á Gaza!
 
Mætum öll og styðjum Palestínu!