Fara í efni
Mannlíf

Gamla myndin: veistu hvar þetta er?

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 228. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.

Hefur þú, lesandi góður, hugmynd um hvar myndin hér að ofan er tekin og hvað þarna er á seyði? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net

    • Myndin hér fyrir neðan birtist síðasta föstudag. Ekki leið á löngu þar til nöfn allra þriggja höfðu borist. Þetta eru Akureyringar og allir þrír kunnir íþróttamenn úr röðum Þórsara. Lengst til vinstri er Gunnar Óskarsson múrarameistari, í miðjunni er að öllum líkindum Gunnar Sigurjónsson sem vann hjá Kaupfélagi Eyfirðinga nær alla starfsævina, og lengst til hægri Sverrir Georgsson sem rak Vinnuvélar s/f ásamt Guðmundi bróður sínum – Gvendi Gorra, eins og hann var gjarnan kallaður. Georg Tryggvason, bróðursonur Sverris og Guðmundar, segir myndina tekna á svokölluðu Turner svæði á Vellinum; hjá bandaríska hernum á Keflavíkurflugvelli. Georg segir líklegt að þremenningarnir hafi verið í innkaupaferð vegna tækja eða vinnuvéla og myndin sé tekin fyrir 1960.