Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
28.02.2025 kl. 06:00

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 225. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.
Hefur þú, lesandi góður, hugmynd um hvar þessi mynd er tekin? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin hér fyrir neðan birtist síðasta föstudag. Helsta tilgátan til þessa er að þetta sé Hríseyjargata 21 á Akureyri – hús sem gjarnan var kallað Langavitleysa og er hugsanlega enn. Ekki eru þó allir lesendur sannfærðir um það; hurðir og gluggar séu altjent ekki eins og fyrirkomulagið var í gamla daga. Maður sem rýndi vel í myndina segist telja að á bekknum sitji feðgarnir Sigursteinn Gunnlaugsson, sem fæddur var 1896 og bjó í Norðurgötu 6B, og Vernharð Sigursteinsson (f. 1929, d. 2012) sem bjó einmitt lengi í Hríseyjargötu 21. Sá sem súpi þarna á sé a.m.k. mjög líkur Sigursteini.