Fara í efni
Mannlíf

Gamla myndin: veistu hvar þetta er?

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 209. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, flestar hafa vakið mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar myndirnar.

Hefurðu hugmynd um hvar þessi stórskemmtilega mynd er tekin og hvaða fólk er þarna á ferðinni? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um staðinn eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net

  • Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Enginn hefur þorað að giska á nákvæmlega hvar hún er tekin en margar skemmtilegar athugasemdir hafa hins vegar borist. Eitt bréfið var svona:
  • Ég fylgist alltaf með gömlu myndinni mér til ánægju og yndisauka enda er ég allur í fortíðinni. Þetta er augljóslega vegavinnuhópur og matarskúrinn í forgrunni en þar hafði ráðskonan lítið afþiljað herbergi. Tjöldin voru svo reist allt í kring og svona búðir voru á mörgum heiðarvegum um allt land. Greinilega helgarleyfi fram undan og karlarnir að raka sig og funsa sig fyrir heimferð yfir bláhelgina. Hannes Pétursson lýsir þessu vel í bókinni Jarðlag í Tímanum bls. 88-121 en þá var hann kúskur á Öxnadalsheiði. Vandamálið er bara hvar eru þessar vegavinnumannabúðir? Og þar stend ég á gati. 

Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR