Fara í efni
Mannlíf

Gaman á gleði- og söngæfingu karlanna

Magnús Hilmar Felixson syngur einsöng á æfingu kórsins í vikunni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Karlakór Akureyrar - Geysir hélt gleði- og söngæfingu á LYST í Lystigarðinum í fyrrakvöld. Samkoman var óhefðbundin og skemmtileg; að hluta til venjuleg æfing, að því er virtist, þar sem Valmar Väljaots stjórnandi kórsins, sagði mönnum til í gamni og alvöru. Stundum fengu viðstaddir að taka undir en þónokkur hópur fólks gerði sér ferð í Lystigarðinn til að fylgjast með.

„Þið lítið út eins og eitthvað hafi farið úrskeiðis! Þið smitið fólkið ekki með svona söng,“ sagði Valmar við sína menn þegar hann stoppaði þá af í miðju lagi. Svo sungu þeir eins og englar þegar stjórnandinn hleypti hópnum á skeið á nýjan leik. 

„Þetta hljómar eins og þegar konan sendir mig út á sunnudagsmorgni til að berja mottuna -  fúm, fúm, fúm...“ sagði stjórnandinn í miðju laginu Á jólunum er gleði og gaman. Þá var hlegið dátt og þráðurinn tekinn upp í snarhasti.

Samkomunni lauk með því að allir sungu saman Heims um ból og að því loknu hélt fólk út í svalt og dimmt desemberkvöldið.