Fara í efni
Fréttir

Gætu óskað lengingar kjörfundar til sunnudags

Gangi veðurspá eftir er hugsanlegt að kjörfundur í Norðausturkjördæmi standi fram á sunnudag. Yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi er tilbúin að óska eftir því að kjörfundur verði lengdur fram á sunnudag ef veður verður þannig að kjósendur eigi erfitt með að komast á kjörstað á laugardag. Þetta kemur fram í frétt vefmiðilsins Austurfréttar nú fyrir stundu. 

Lenging á kjörfundi fram á sunnudag myndi að sjálfsögðu tefja fyrir því að úrslit fyrir allt landið yrðu ljós því ekki yrði hægt að hefja talningu fyrr en kjörfundum á öllu landinu er lokið.

Jafnvel þótt kjörfundurinn stæði aðeins til kl. 22 á laugardag eins og áformað er getur veðrið einnig haft áhrif á talningu atkvæða því öll atkvæði í Norðausturkjördæmi eru talin á Akureyri og þarf því meðal annars að flytja kjörkassa af Austurlandi yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi, svo dæmi sé tekið. Yfirkjörstjórn hefur þó heimild til að skipa tvær undirkjörstjórnir með heimild til að telja atkvæði, en því ákvæði verður þó ekki beitt fyrr en útséð væri með öllu að ekki væri hægt að koma kjörgögnum til Akureyrar. 

Ósk um lengingu bíður kjördags

Austurfrétt vísar í Gest Jónsson, formann yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, sem segir náið fylgst með veðurspám og að viðbrögð verði undirbúin ef verstu spár rætast. Endanleg ákvörðun um slíkt er síðan í höndum landskjörstjórnar, en yfirstjórnir kjördæmanna geta óskað eftir breytingum á kjörfundi þar sem þær bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna. 

Veðurspár gera ráð fyrir að lægð komi upp að landinu með úrkomu á laugardag, en áhrif hennar þó enn óviss. Lægðin gæti valdið tímabundinni slyddu og mögulega ófærð á fjallvegum, en eins og staðan er núna er líklegt að áhrifin verði mest á Norður- og Austurlandi þar sem gæti orðið talsverð snjókoma og hvassviðri. Hins vegar er gert ráð fyrir að veðrið myndi ganga niður snemma á sunnudagsmorguninn.

Einnig kemur fram í áðurnefndri frétt að ef til þess kæmi að yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi teldi þörf á lengingu kjörfundar yrði slík ósk þó aldrei send inn fyrr en á laugardag þegar kæmi í ljós hvort veðrið verði það vont að kjósendur komist ekki á kjörstað.

Yfirkjörstjórn hefur samið við flestar björgunarsveitir svæðisins um að vera tiltækar ef á þarf að halda. 

Uppfært:

Landskjörstjórn fundar í dag og fer þá meðal annars yfir stöðuna vegna veðurútlits á Norður- og Austurlandi. Þetta kemur fram á ruv.is. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins kom einnig fram að hugsanlega myndu íbúar Grímseyjar allir greiða atkvæði utan kjörfundar á fimmtudag vegna veðurútlitsins og ljúka þannig sínum kosningum fyrir kjördag.