Fyrstu skóflustungur teknar í Móahverfi
Þrjár fyrstu skóflustungurnar voru teknar í morgun í Móahverfi, vestan Borgarbrautar nyrst í bænum. Þar með hefjast formlega framkvæmdir við þetta nýjasta hverfi Akureyrar.
Þau sem sveifluðu skóflunum að þessu sinni voru Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar og Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs.
Gert er ráð fyrir að byggðar verði allt að 1.100 íbúðir í hverfinu á næstu árum og að íbúar verði 2.300 til 2.400. Framkvæmdir við gatnagerð og lagnavinnu hefjast strax í dag. Í fyrsta áfanga er áhersla lögð á lóðir fyrir fjölbýlishús af öllum stærðum og gerðum auk nokkurra par- og raðhúsa.
Deiliskipulag fyrir Móahverfi var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar 10. maí 2022. Þetta nýja íbúðahverfi nær yfir um 45 hektara lands þar sem er skipulögð byggð með bæði fjölbýli og sérbýli. Gildandi deiliskipulagsuppdrátt fyrir Móahverfi má nálgast á vefsíðu Skipulagsstofnunar, Deiliskipulag Móahverfi.
Framkvæmdum er skipt í þrjá verkhluta og er nú hafist handa við þann fyrsta sem felur í sér um 3 km af götum og gangstéttum, um 2 km af göngustígum og tilkeyrandi fráveitu- og neysluvatnslagnir, ásamt lögnum fyrir hitaveitu, rafveitu og fjarskipti.
Áætlað er að fyrsta verkhluta verði lokið fyrir 1. maí 2024, öðrum verkhluta 1. ágúst 2024 og þriðja og síðasta verkhluta vorið 2025.
- Smelltu hér til að skoða vefsvæði Móahverfis, þar sem er að finna allar helstu upplýsingar um fyrirhugaða uppbyggingu.
Fyrstu skóflustungurnar voru teknar þar sem rauði hringurinn er dreginn. Þar verður Síðubraut lögð áfram til vesturs og liggur norðan við nýja hverfið.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sagði stuttlega frá nýja hverfinu áður en Heimir Örn Árnason, Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson munduðu skóflurnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson