Fara í efni
Íþróttir

Fyrsta markið var ekki fyrsta markið

Fyrsta markið í efstu deild er ekki alltaf fyrsta markið í efstu deild. Þú telur þig hafa skorað, boltinn fór vissulega í markið, en þegar upp var staðið var markið skráð sem sjálfsmark markvarðar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Fyrsta marki leikmanna í meistaraflokki eða fyrsta marki í efstu deild ber að fagna enda þykir það ákveðinn áfangi á ferli leikmanna. En stundum er fyrsta markið þitt ekki skráð sem þitt mark heldur sjálfsmark andstæðings, með réttu eða röngu.

Í leik Þórs/KA og Tindastóls skoruðu tvær Þór/KA-stelpur sitt fyrsta mark í efstu deild. Emelía Ósk Krüger skoraði fimmta markið í 5-0 sigrinum í Boganum, en áður hafði Iðunn Rán Gunnarsdóttir skorað sitt fyrsta þegar hún kom Þór/KA í 3-0. Það skondna reyndar í þessu samhengi að dómarar leiksins skráðu markið á Huldu Ósk Jónsdóttur á leikskýrslu þannig að þegar þessi frétt birtist er Iðunn Rán ekki enn formlega búin að fá fysta A-deildarmarkið sitt viðurkennt. 

Í júní í fyrra taldi Iðunn Rán sig hafa skorað sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hún jafnaði leik Þórs/KA og Stjörnunnar á Þórsvellinum í 3-3 eftir að Stjarnan hafði náð þriggja marka forystu í fyrri hálfleik. Mark Iðunnar í leiknum var hins vegar skráð sem sjálfsmark þar sem boltinn fór í stöngina, þaðan í markvörð Stjörnunnar og svo að endingu í markið.

Reglan er víst sú að ef boltinn stefnir ekki inn í markið þegar hann kemur við andstæðing með þeim afleiðingum að hann fer í markið er það skráð sem sjálfsmark. Var það metið svo að þegar boltinn fór af stönginni og var á leið í markmanninn hafi hann ekki stefnt inn í markið.

Akureyri.net náði góðri myndasyrpu af þessu marki og fögnuði Þórs/KA-kvenna þegar þær höfðu jafnað leik sem virtist 45 mínútum áður vera gjörtapaður. En leikurinn er ekki búinn þegar hann er hálfnaður. 


Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Tahnai Annis og Hulda Ósk Jónsdóttir horfa vongóðar á eftir boltanum. Stjörnustelpunum líst greinilega ekki á blikuna. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson. 


Boltinn lá í netinu og fögnuðurinn að sjálfsögðu innilegur. Iðunn Rán, Hulda Ósk og Tahnai fagna, en Andreu Mist Pálsdóttur er ekki skemmt.


Eins og sjá má voru rétt rúmar 89 mínútur liðnar af leiknum samkvæmt vallarklukkunni. Agnes Birta Stefánsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir mættar í partíið.

 


Hulda Björg vill vera með. Dómarinn staðfestir markið.