Fyrsta leiklistarnámskeið nýs leiklistarskóla
Leiklistarskóli Draumaleikhússins hefur hafið skráningu á fyrsta námskeið skólans, 12 vikna námskeið sem hefst 15. september og er ætlað fyrir 16-25 ára. Þar verður snert á ýmsum leikstílum, einbeiting á líkama og rödd, en einnig að byggja upp sjálfið, að því er fram kemur í tilkynningu leikhússins.
Kennt verður einu sinni í viku fyrstu tíu vikurnar en oftar síðustu tvær og endað á leiksýningu. Kennari á námskeiðinu er Pétur Guðjónsson og honum til aðstoðar er Eden B. Hróa. Námskeiðið er fyrir byrjendur sem og lengra komna. Um krefjandi en skemmtilegt námskeið verður að ræða sem kennt verður á sunnudögum.
Draumaleikhúsið, nokkurs konar afsprengi leikhópsins Grímanna sem setti hefur upp þrjú verk á Akureyri á undanförnum árum, Berness, já takk & franskar á milli, Gúgglaðu það bara og Tuma tímalausa í álfheimum, og árið 2024 umbrotaár í starfseminni þar sem áherslur breytast yfir í námskeiðahald með stofnun leiklistarskóla.
Stefnt er að fjölbreytilegum námskeiðum, en fyrst um sinn verður áhersla á aldurshópinn 16-25 ára í sviðslistarnámskeiði með möguleika á framhaldsnámskeiði síðar. Þá er einnig í deiglunni leiklistarnámskeið fyrir 67 ára og eldri, framkomunámskeið og námskeið í kvikmyndaleik og -gerð.
Þar sem draumarnir rætast
Að Leiklistarskóla Draumaleikhússins standa Pétur Guðjónsson og Kristján Blær Sigurðsson. Verkefnið er stutt af SSNE en einnig hefur Akureyrarakademían veitt vinnuaðstöðu sem úthlutað var í frumkvöðlaverkefni, sem er samkvæmt samstarfssamningi Akureyrarbæjar og Akureyrarakademíunnar. Þar sem draumarnir rætast, er mottóið sem Draumaleikhúsið starfar eftir. Nánari upplýsingar um námskeiðahald leikhússins má finna á vef þess, draumaleikhusid.is.