Fara í efni
Íþróttir

Fyrst norðankvenna með svart belti í BJJ

Rut Pétursdóttir, þjálfari og eigandi hjá Atlantic BJJ. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

„Þetta byrjaði nú bara þannig að ég fékk grunnnámskeið í Jiu Jitsu í afmælisgjöf frá manninum mínum árið 2014,“ segir Rut Pétursdóttir, annar eigenda Atlantic, Brazilian Jiu Jitsu klúbbs á Akureyri og nýbakaður handhafi svarta beltisins í íþróttinni. „Hann var nýlega byrjaður að æfa sjálfur og satt að segja leist mér ekkert á að prófa! En ég vildi nýta það sem mér er gefið og mætti á þetta námskeið. Strax á fyrstu æfingunni opnuðust einhverjir heimar fyrir mér. Ég áttaði mig á því, um hvað þetta snýst að einhverju leyti og fannst ótrúlega gaman strax.“

Rut Pétursdóttir rekur Atlantic ásamt manninum gjafmilda, Tómasi Pálssyni. Þau stofnsettu stöðina formlega árið 2020. Í janúar náði Rut stórum áfanga, þegar hún fékk svarta beltið í íþróttinni, fyrst kvenna á Norðurlandi. En hvað er brasilískt Jiu Jitsu (BJJ), og hver er Rut? Blaðamaður Akureyri.net spjallaði við Rut á æfingu Atlantic, sem er til húsa á 3. hæð á Tryggvabraut 22, en besta leiðin til þess að skilja ástríðufulla íþrótt, er að komast í návígi og upplifa stemninguna beint.

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Rut. Seinni hluti birtist á Akureyri.net á morgun.

Á MORGUN„ANDLEGUR STYRKUR OG SJÁLFSTRAUST VEX Í BJJ“

 

Æfing fyrir fullorðna hjá Atlantic BJJ. Rut og Tómas í forgrunni að glíma. Mynd: RH

Hafði engan áhuga á bardagaíþróttum

„Ég ætlaði mér ekkert í neinar bardagaíþróttir, þegar ég fékk afmælisgjöfina frá Tómasi. Á þessum tíma var ég 27 ára, að æfa bardagahreysti í Fenri, sem snerist aðallega um styrktaræfingar og bardagaþrek eins og þau kölluðu það,“ segir Rut. „Tómas var þá byrjaður að æfa BJJ fyrir einhverjum mánuðum síðan, en ég sýndi því lítinn áhuga og skilning, í rauninni. Ég hafði æft fótbolta, fimleika og skíði á yngri árum, en hafði engan bakgrunn í bardagaíþróttum.“ 

Við erum saman á mottunum að kljást við erfiðar stöður og reyna að komast yfir hindranir saman. Við verðum óumflýjanlega náin og það er sterk vinátta hérna

„Ég sá bara fyrir mér einhverja sveitta gaura að hnoðast,“ segir Rut og hlær að því hvað hún sá lítinn dýrðarljóma yfir íþróttinni þá, sem í dag hefur heltekið hana algjörlega. Það tók þó bara eitt grunnnámskeið, til þess að breyta sýn hennar. „Þetta snýst um svo miklu meira en hnoð. Styrk, þol og svo ekki sé talað um félagslega þáttinn og þann andlega. Iðkunin tekur á svo mörgum þáttum af heilbrigði.“ Fyrstu árin æfðu Rut og Tómas saman á Akureyri, en svo kom tímabil þar sem enginn klúbbur var starfræktur. Þá tóku þau málin í sínar hendur og stofnuðu Atlantic. 

„Afhverju ekki að stofna bara sjálf klúbb? Tómas er líka menntaður einkaþjálfari og hafði mikinn áhuga á því að blanda saman styrktarþjálfun og Jiu Jitsu,“ segir Rut. „Við vorum með hóp sem vildi æfa, en það hafði liðið ár þar sem við höfðum verið nokkur saman að finna staði hér og þar, púsla saman mottum og glíma. Það vantaði í rauninni bara umgjörðina utan um hópinn og við tókum það að okkur. Atlantic var formlega stofnað í maí 2020.“ Rut segir að síðan hafi hópurinn stækkað með hverju árinu, en það var varlega farið fyrstu árin vegna Covid-faraldursins. 

 

Rut mælir með því að stunda BJJ með makanum. „Við eyðum tíma í núvitund saman þar sem augnablikið snýst bara um glímuna, tökumst á og fáum bæði góða útrás,“ segir hún. Mynd: RH

Kostur að vera í þessu saman

Æfingin sem blaðamaður fær að kíkja á fer rólega af stað. Í rauninni kjarnar það stemninguna í salnum, að þrátt fyrir að fólk sé að kljást í glímum um allt gólf, er ekki að finna fyrir neinum æsingi. Það sem liggur í loftinu er einbeiting, styrkur og gleði. Rut tekur fyrstu glímu æfingarinnar við Tómas, en hún segir að það sé mjög gott fyrir sambandið að glíma annað slagið. „Fyrir það fyrsta finnst mér yfirhöfuð mikilvægt og skemmtilegt fyrir pör að eiga sameiginlegt áhugamál,“ segir hún. „Þegar áhugamálið er stórt, tekur mikinn tíma og er einskonar lífstíll eins og glíman hjá okkur, þá er ótrúlega gott að við erum í þessu saman. Skiljum bæði um hvað málið snýst, þessa miklu ástríðu og hve mikill tími fer í æfingar og þjálfun. Að glíma saman gerir sambandinu gott, við eigum skemmtilegar stundir saman á mottunum, eyðum tíma í núvitund saman þar sem augnablikið snýst bara um glímuna, tökumst á og fáum bæði góða útrás.“

Félagslegi þátturinn er gríðarstór

„Í dag erum við með barna- og unglingastarf auk þess að hafa æfingar fyrir fullorðna,“ segir Rut. „Og það er alltaf að stækka, við erum með stigvaxandi, öruggan og góðan vöxt. Samfélagið í kring um klúbbinn er æðislegt, en við vitum að íþróttir almennt eru félagslega eflandi. Ég held samt að flest sem hafa æft bardagaíþróttir kannist við að það sé sérstaklega náið. Við erum saman á mottunum að kljást við erfiðar stöður og reyna að komast yfir hindranir saman. Við verðum óumflýjanlega náin og það er sterk vinátta hérna. Án þessa hóps væri Atlantic ekki til.“

 

Rut segir að um fjórðungur iðkenda í Atlantic séu konur, sem er hátt hlutfall. Hér glíma tvær góðar á fullorðinsæfingunni. Mynd: RH

Íþrótt fyrir alla og aldrei of seint að byrja

„Það sem mér finnst líka mjög fallegt við þessa íþrótt, er að það er fólk á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum sem getur iðkað hana,“ segir Rut. „Það er aldrei of seint að byrja í þessu. Ég byrjaði 27 ára, sumir eru að byrja hérna eftir fertugt. Ég hef heyrt dæmi af fólki út í heimi sem er enn að æfa, orðið 80-90 ára. Þú gerir þetta á þínum styrk og þínum hraða.“ 

Þú tekur ekki bara einhver ákveðin beltapróf og kannt þá bara allt þegar svarta er komið í hús

Einhver telja BJJ kannski vera karllæga íþrótt, en það eru margar konur að iðka íþróttina um allan heim. „Hjá okkur myndi ég segja að það séu svona fjórðungur iðkenda konur eins og staðan er í dag. Það er mjög flott hlutfall. Ég er fimmta konan á Íslandi til þess að fá svarta beltið, en sú fyrsta hjá okkur og á Norðurlandi. Litaröðin er hvítt, blátt, fjólublátt, brúnt og svo svart belti. Það fer algjörlega eftir einstaklingnum, hversu langan tíma það tekur að fá beltin,“ segir Rut, en hún leggur áherslu á þróun einstaklingsins í íþróttinni, þar sem ferill hvers og eins er kallaður 'vegferð'. „Það er ekki staðlað, hvað þarf að kunna til að fá hvaða belti. Það er ákveðin tækni og ákveðin hegðun sem verið er að horfa í. Hærri beltin í hverjum klúbbi fyrir sig, ákveða hvenær fólk er tilbúið í næsta belti,“ segir Rut Pétursdóttir.

Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Rut. Á morgun birtum við seinni hlutann. Þá förum við meira í andlega ávinninginn og Rut segir frá æfingunni þegar hún fékk svarta beltið, algjörlega óvænt. 

Á MORGUN„ANDLEGUR STYRKUR OG SJÁLFSTRAUST VEX Í BJJ“

 

„Þetta snýst um svo miklu meira en hnoð,“ segir Rut. Mynd: RH