Fúsi stígur á svið Samkomuhússins
Leiksýningin Fúsi: Aldur og ævi sem sló í gegn hjá Borgarleikhúsinu á siðasta leikári verður sýnd um mánaðarmótin janúar og febrúar 2025 í Samkomuhúsinu á Akureyri. Sýningin fékk hvatningarverðlaunin á Grímunni 2024 fyrir framúrskarandi nýbreytni í sviðslistum ásamt því að Agnar Jón Egilsson hlaut verðlaun sem leikstjóri ársins fyrir sýninguna. Þetta segir í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar.
„Fúsi er húmoristi, fótboltaáhugamaður, leikari, söngvari og lífskúnstner sem minnir okkur á að lífið er alltaf þess virði að lifa því þó að stundum sverfi að. Í sýningunni stiklar Fúsi á stóru og eru atvik úr fjölbreyttri ævi hans færð yfir í leik og söngbúning samhliða hans eigin frásögn. Fúsi glímir við fötlun og eins og segir í upplýsingum um sýninguna þá hafa hindranirnar í lífi hans eflt og hvatt hann til að lifa lífinu til hins ítrasta og njóta hvers einasta dags. Stundum er lífsreynslan þó þess eðlis að aldrei verður fyllilega hægt að komast yfir hana, sama hversu jákvæður og sterkur einstaklingur er.“
Agnar Jón Egilsson, leikstjóri og leikari, og Fúsi – Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson.
„Þetta er áhrifamikil og lifandi sýning sem lætur engan ósnortin, sagan er byggð á viðtölum sem leikstjórinn, Agnar Jón tók við Fúsa og þótti honum saga hans það merkileg að hún yrði að verða sögð og að hún yrði að komast á svið. Nú eru það Norðlendingar sem fá að njóta sögu Fúsa á fjölum Samkomuhússins á Akureyri.
Leikarar í verkinu ásamt Fúsa sjálfum eru Halldóra Geirharðsdóttir sem slegið hefur í gegn í sýningunni Níu líf, Bergur Þór, nýráðinn leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, Agnar Jón Egilsson, leikstjóri og Egill Andrason.“
Leiksýningin er unnin í samstarfi við sviðslistaframleiðandann Monochrome og List án landamæra.