Furðusýn Söru Sifjar í Mjólkurbúðinni
Myndlistarkonan Sara Sif Kristinsdóttir opnar einkasýninguna Furðusýn á morgun, föstudaginn 5. júlí, kl. 20.00 í Mjólkurbúðinni – Sal Myndlistarfélagsins á Akureyri í Listagilinu. Sýningin er opin helgarnar 6. - 7. júlí kl. 14-17 og 13. - 14. júlí kl 14-17.
Á sýningunni verða ný og áður ósýnd málverk úr einkaeigu ásamt nýjum grafík myndum og um sölusýningu er að ræða.
Sara Sif Kristinsdóttir fæddist á Blönduósi 3. febrúar 1992. Hún ólst upp á Selfossi og býr nú og starfar á Akureyri. Hún hefur lagt nám við myndlist á Íslandi og í Danmörku, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum með Myndlistarfélagi Akureyrar og öðrum.
„Sara byrjaði ung að teikna og má segja að það hafi verið hennar fyrsta ást,“ segir í tilkynningum sýninguna. „Þegar hún fékk inngöngu við Myndlistaskólann á Akureyri kynntist hún olíumálun sem tók yfir. Nú notfærir hún sér þekkingu sína sem teiknari til að skapa allskyns ólíka en samtengda heima með olíumálverkum og hefur síðustu ár reynt sig áfram með dúkristum. Náttúran, myrkur, dauðinn, ljósið og lífið sjálft spinnast saman í myndheimi sem er ætlað að vekja fólk til umhugsunar. Óþægindi eru mikilvægur hluti af lífinu og reynir Sara að vekja upp ákveðin óþægindi hjá fólki með því að blanda saman sveppum, dýrum, mönnum og frumskóginum, skapa samlífi ólíkra þátta sem eiga ekki að ganga upp.“