Fara í efni
Menning

Frumfluttu aldargamla Nóvelettu Sveinbjörns

Þórarinn Stefánsson og Alexander Edelstein á píanóhátíðinni. Myndir: Sunna Rán Stefánsdóttir
Akureyringarnir Þórarinn Stefánsson og Alexander Smári Kristjánsson Edelstein frumfluttu um fyrri helgi Nóvelettu fyrir tvö píanó eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, verk sem samið var um aldamótin 1900. Verkið fluttu þeir á hátíð íslenskrar píanótónlistar, Slagharpan syngur, sem fram fór í Reykjavík og Kópavogi á vegum Listaháskóla Íslands. Á hátíðinni frumflutti Þórarinn einnig tvö píanóverk frá 2021 sem Hafliði Hallgrímsson tileinkaði honum.
 
Þórarinn Stefánsson kynnti einnig á hátíðinni heildarútgáfu sína af píanóverkum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar á nótum og tvöföldum geisladiski. Söfnun vegna útgáfunnar stendur yfir á Karolina Fund og er ástæða til að vekja athygli á söfnuninni og þessari metnaðarfullu útgáfu Polarfonia Classics, útgáfufélags Þórarins.
 

Sveinbjörn Sveinbjörnsson 

Ekkja Sveinbjörns, Eleanor Sveinbjörnsson, afhenti íslenska ríkinu öll handrit hans að gjöf árið 1954 í þeirri von að þau yrðu gefin út og gerð aðgengileg. Handritin hafa verið varðveitt á handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar og nú, 70 árum síðar, er útgáfa orðin að veruleika hvað píanóverkin varðar.
 
Níu nótnabækur eru nú fáanlegar með öllum píanóverkunum tónskáldsins, fyrir einleik, fjórhent og eitt verk fyrir tvö píanó. Auk þess hafa einleiksverkin verið hljóðrituð, flest í fyrsta sinn, og koma út á tvöföldum geisladiski í flutningi Þórarins Stefánssonar. Í aukaefni með diskinum er að finna söguleg hljóðrit úr safni Danmarks Radio, danska ríkisútvarpsins, frá 1926 þar sem Sveinbjörn leikur sjálfur fáein verka sinna.
 

Þórarinn Stefánsson segir frá heildarútgáfu sinni á píanóverkum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.

„Nóvelettan er eina verk Sveinbjörns fyrir tvö píanó og okkur vitanlega hefur verkið aldrei verið flutt áður. Við höfum að minnsta kosti ekki heyrt neinar mótbárur. Verkið var samið í kringum aldamótin 1900, ekki er reyndar vitað nákvæmlega hvenær því öll handrit Sveinbjörns eru ódagsett – en sannarlega var kominn tími á frumflutning,“ segir Þórarinn við Akureyri.net.

Sum handrita Sveinbjörns Sveinbjörnssonar voru á sínum tíma gefin út í Edinborg, þar sem hann bjó og starfaði lengi, og í London „en öll handritin sem slík hafa legið ósnert síðan 1954. Einhverjir hafa grúskað í þeim en ekkert gert með þau,“ segir Þórarinn.

Umfangsmikið verkefni

Þórarinn segir engan Íslending hafa skrifað fyrir píanó í þeim stíl sem einkennir verk Sveinbjörns. „Verk hans eru einstök í sinni röð,“ segir hann. Beðinn að útskýra það nánar segir Þórarinn: „Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld segir Sveinbjörn hafa samið í anda beykiskógarrómantíkur! Það er besta lýsing sem ég hef heyrt á þessari norrænu eða þýsku leið, þar sem tónskáld sömdu rómantísk smáverk; Grieg, Mendelsohn og margir fleiri sem voru upp á svipuðum tíma.“

Vinnan við útgáfuna hefur tekið mun lengri tíma en Þórarin óraði fyrir. „Ég er búinn að vinna í þessu allt of lengi, meðfram allt of mikilli vinnu, í um það bil 10 ár. Til stóð að þetta kæmi út 2017 því Sveinbjörn er fæddur 1847 og deyr 1927, en ekki tókst betur til en svo að útgáfan dróst þar til nú því verkefnið reyndist umfangsmeira en ég hélt í upphafi. En betra seint en aldrei.“

Höfundur þjóðsöngsins

Þegar spurt er hvað knúði Þórarin til þess að ráðast í heildarútgáfu á píanóverkum Sveinbjörns svarar hann: „Góð spurning!“

Hluti höfundarverks tónskáldsins er Lofsöngur, þjóðsöngur Íslendinga. Það virðist sannarlega ekki á allra vitorði lengur og Þórarinn segir því að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar sem kennara að koma verkum Sveinbjörns á framfæri. „Í samtölum mínum við nemendur, meðal annars á menntaskólaaldri, og jafnvel foreldra þeirra kom í ljós að enginn vissi í raun hver hefði samið þjóðsönginn okkar og ég áttaði mig á því að mjög vantaði upp á þekkingu almennings á tónskáldinu. Þeir sem eru íþróttasinnaðir og horfa oft á landsleiki vita mjög margir að Matthías Jochumsson samdi textann en fáir hver samdi lagið. Þetta var líklega það sem aðallega fékk mig til að fara af stað.“