Frumfluttu aldargamla Nóvelettu Sveinbjörns
Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Þórarinn Stefánsson segir frá heildarútgáfu sinni á píanóverkum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.
„Nóvelettan er eina verk Sveinbjörns fyrir tvö píanó og okkur vitanlega hefur verkið aldrei verið flutt áður. Við höfum að minnsta kosti ekki heyrt neinar mótbárur. Verkið var samið í kringum aldamótin 1900, ekki er reyndar vitað nákvæmlega hvenær því öll handrit Sveinbjörns eru ódagsett – en sannarlega var kominn tími á frumflutning,“ segir Þórarinn við Akureyri.net.
Sum handrita Sveinbjörns Sveinbjörnssonar voru á sínum tíma gefin út í Edinborg, þar sem hann bjó og starfaði lengi, og í London „en öll handritin sem slík hafa legið ósnert síðan 1954. Einhverjir hafa grúskað í þeim en ekkert gert með þau,“ segir Þórarinn.
Umfangsmikið verkefni
Þórarinn segir engan Íslending hafa skrifað fyrir píanó í þeim stíl sem einkennir verk Sveinbjörns. „Verk hans eru einstök í sinni röð,“ segir hann. Beðinn að útskýra það nánar segir Þórarinn: „Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld segir Sveinbjörn hafa samið í anda beykiskógarrómantíkur! Það er besta lýsing sem ég hef heyrt á þessari norrænu eða þýsku leið, þar sem tónskáld sömdu rómantísk smáverk; Grieg, Mendelsohn og margir fleiri sem voru upp á svipuðum tíma.“
Vinnan við útgáfuna hefur tekið mun lengri tíma en Þórarin óraði fyrir. „Ég er búinn að vinna í þessu allt of lengi, meðfram allt of mikilli vinnu, í um það bil 10 ár. Til stóð að þetta kæmi út 2017 því Sveinbjörn er fæddur 1847 og deyr 1927, en ekki tókst betur til en svo að útgáfan dróst þar til nú því verkefnið reyndist umfangsmeira en ég hélt í upphafi. En betra seint en aldrei.“
Höfundur þjóðsöngsins
Þegar spurt er hvað knúði Þórarin til þess að ráðast í heildarútgáfu á píanóverkum Sveinbjörns svarar hann: „Góð spurning!“
Hluti höfundarverks tónskáldsins er Lofsöngur, þjóðsöngur Íslendinga. Það virðist sannarlega ekki á allra vitorði lengur og Þórarinn segir því að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar sem kennara að koma verkum Sveinbjörns á framfæri. „Í samtölum mínum við nemendur, meðal annars á menntaskólaaldri, og jafnvel foreldra þeirra kom í ljós að enginn vissi í raun hver hefði samið þjóðsönginn okkar og ég áttaði mig á því að mjög vantaði upp á þekkingu almennings á tónskáldinu. Þeir sem eru íþróttasinnaðir og horfa oft á landsleiki vita mjög margir að Matthías Jochumsson samdi textann en fáir hver samdi lagið. Þetta var líklega það sem aðallega fékk mig til að fara af stað.“