Frægasta kisa bæjarins leitar sér að heimili
Kötturinn Reykjavík, sem var efstur á lista Kattaframboðsins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar, er ekki spenntur fyrir flutningum í höfuðborgina með eiganda sínum og leitar því að nýju heimili á Akureyri.
Köttur í framboði
„Ég er að flytja í höfuðborgina og ég held bara að hún Reykjavík myndi ekki kunna við sig í borginni, hún er svo mikill Akureyringur og því langar mig til þess að athuga hvort það sé kannski fólk hér í bænum sem er til í að taka við henni. En ef í harðbakkann slær þá kemur hún suður í Vesturbæinn með mér,“ segir Guðrún Þórsdóttir, eigandi frægasta kattar Akureyrar. Kattaframboðið vakti töluverða athygli í síðustu bæjarstjórnarkosningum en þar lánuðu kattareigendur kennitölur sínar til kattanna sinna svo þeir yrðu kjörgengir. Kötturinn Reykjavík, fór þar fremstur í flokki og skipaði efsta sæti listans en framboðið náði reyndar engum fulltrúa inn.
Félagslynd og kelin
Reykjavík er 9 ára gömul. Hún kemur upphaflega úr Fnjóskadal en ólst upp á Eyrinni hjá Guðrúnu, þáverandi maka hennar og tveimur dætrum. Undanfarin ár hefur hún verið búsett í Holtagötu og notið þess að spígspora um hverfið. Margir sundlaugargestir kannast vel við Reykjavík því hún kemur oft við í Sundlaug Akureyrar á sínum daglega rúnti um Neðri Brekkuna. Þá er hún vinsælt myndefni hjá ferðamönnum sem finnst fyndið að finna kött á Akureyri sem heitir Reykjavík.
Að sögn Guðrúnar kom nafngiftin þannig til að þegar hún var sótt sem kettlingur í Fnjóskadalinn var hún meira reyklituð á lit. Nafnið Þoka hafi þá komið til greina en Reykjavík varð svo ofan á. „Hún er mjög sjálfstæð og það þarf ekki að hafa mikið fyrir henni. Mér finnst eins og hún hafi aðeins ofmetnast eftir að hún var í efsta sæti Kattaframboðsins, hún var náttúrulega bæjarstjóraefni,“ segir Guðrún þegar hún er beðin um að lýsa Reykjavík.“ Hún heldur áfram; „Hún er gríðarlega félagslynd og kelin. Ég hef alveg tekið hana með í matarboð og slíkt og hún nýtur þess.”
Á uppvaxtarárunum á Eyrinni. Reykjavík kemur þó upphaflega úr Fnjóskadal.
Sjálfstæður köttur
Guðrún segir að Reykjavík sé matvönd og vilji ekki hvað sem er. Nætursöltuð ýsa er í algjöru uppáhaldi. „Ég er að leita að fólki sem er til í að eiga sjálfstæðan kött, kött sem er mikið úti og kemur jafnvel bara inn til þess að borða, þannig hefur hún a.m.k haft það undanfarið hjá mér. Ég er að leita að einhverjum sem er til í að verða forsvarsmaður hennar, það þarf að vera einhver sem er búsettur á Brekkunni því það er hennar svæði. Viðkomandi þarf að hafa gaman af köttum og til í að gefa henni eitthvað gott að borða.“
Þeir sem vilja taka við þessum frægasta ketti Akureyrar geta sett sig í samband við Guðrúnu í síma 6632848.
Reykjavík er bæði félagslynd og kelin en fer þó sínar eigin leiðir og er mjög sjálfstæð.