Fréttir
Föst í Færeyjum og á Akureyri
03.03.2025 kl. 18:00

Nokkrir Færeyinganna sem voru á Akureyri um helgina brugðu sér á skauta en illu heilli var lokað í Hlíðarfjalli bæði á laugardag og sunnudag. Mynd: Þorgeir Baldursson
Um 130 manns sem áttu flug heim til Akureyrar frá Færeyjum í gær eru veðurtepptir og sama á við um hóp Færeyinga sem kom til Akureyrar. Í hópnum í Færeyjum eru m.a. tveir norðlenskir kórar: Kammerkór Norðurlands og Karlakór Eyjafjarðar.
Flugið átti upphaflega að fara með Íslendingana frá Færeyjum í gærkvöld og voru allar töskur komnar út í vél þegar fluginu var aflýst vegna veðurs.
Að sögn Guðlaugs Viktorssonar, stjórnanda Karlakórs Eyjafjarðar var heilmikið mál að finna gistingu fyrir alla farþega og dreifðust þeir á nokkra gististaði á mismunandi eyjum. Ferðin hafi þó verið vellukkuð fyrir kórinn sem hélt tvenna tónleika í ferðinni, í Klakksvík og í Þórshöfn. Þá hitti kórinn færeyskan kór og fór víða um eyjarnar undir dyggri leiðsögn Jónasar Helgasonar, fyrrverandi kennara við Menntaskólann á Akureyri. Kammerkór Norðurlands hélt eina vel heppnaða og ágætlega sótta tónleika í ferðinni, að sögn félaga í kórnum sem Akureyri.net náði sambandi við.
Færeyingarnir komu ekki síst til Akureyrar til að renna sér á skíðum en illu heilli var lokað í Hlíðarfjalli bæði á laugardag og sunnudag vegna veðurs. Hópurinn gerði þótt gott úr öllu og heldur vonandi sæll og glaður til síns heima í kvöld.
Brottför er áætluð frá Færeyjum kl. 20. 30 í kvöld, sólarhring seinna en áætlað var upphaflega.


Karlakór Eyjafjarðar í heimsókn í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn þar sem lagið var að sjálfsögðu tekið.