Fara í efni
Menning

Fossar Eyjafjarðar #4: Fossinn innra

Fossinn sem Svavar hefur kosið að nefna 'Fossinn innra'. Mynd: Svavar Alfreð Jónsson

Foss vikunnar er „Fossinn innra“. Fossinn er í Vaðlaheiði. Nánar tiltekið í Kaupangssveit rétt fyrir ofan þjóðveginn.  

Úr bókinni Gljúfrabúar og Giljadísir:

Í einni af bókum sínum segir heimspekingurinn Martin Buber frá rabbínaprestinum Eisik í Kraká í Póllandi. Hann bjó við sára fátækt. Þrjár nætur í röð fékk hann þau fyrirmæli í draumi að leita að fjársjóði undir síkisbrúnni sem lá að konungshöllinni í Prag. Eisik þrammaði því alla leið til Prag enda eftir nokkru að slægjast. Kominn á áfangastað þorði Eisik ekki að hefja leitina því varðmenn stóðu vörð við brúna. Ítrekaðar tilraunir hans til leitar vöktu forvitni yfirmanns varðanna sem spurði Eisik hvaða brölt væri á honum þarna við brúna. Eisik greindi varðstjóranum frá draumnum og fyrirmælum hans. Varðstjórinn sagði ekkert að marka drauma. Sjálfur hefði hann til dæmis einu sinni fengið skilaboð í draumi um að fara alla leið upp til Krakár í Póllandi. Þar hefði hann átt að grafa upp fjársjóð undir ofni í stofu gyðings nokkurs sem Eisik hét. Kvaðst varðstjórinn sem betur fer ekkert mark hafa tekið á því rugli.

Eisik fór á hinn bóginn beint heim aftur, gróf upp fjársjóðinn í stofu sinni og byggði bænahús fyrir peningana.

Ég er ekki fyrsti göngumaðurinn sem rifjar upp þessa sögu. Eins og aðrir hef ég iðulega upplifað að eitt af því merkilegasta og dýrmætasta sem hægt er að uppgötva á ferðalögum býr í eigin ranni.

 

_ _ _

Fossar Eyjafjarðar eru vikulegur viðburður á Akureyri.net. Á hverjum sunnudegi birtum við einn foss úr bók Svavars Alfreðs Jónssonar; Gljúfrabúar og Giljadísir, sem er myndabók með fimmtíu eyfirskum fossum. Tilvitnun í inngang bókarinnar: „Fossar Eyjafjarðar hafa ekki komist í hóp íslenskra elítufossa. Engu að síður eru þeir allir merkisfossar hver með sínu lagi; sumir háir og renglulegir og lufsast fram af hengifluginu með slitróttum ym en aðrir bosmamiklir og sperra fram bringuna um leið og þeir skutla sér niður þverhnípið með þungum og nötrandi dunum.“

Taka ber fram að Svavar er líka með fossa úr Fjallabyggð í bókinni, en hann bjó lengi í Ólafsfirði og telur svæðið vera part af sínum heimavelli í Eyjafirðinum.