Fréttir
Fórnarlamba bílslysa minnst við athöfn í dag
17.11.2024 kl. 09:50
Minningarathöfn um fórnarlömb bílslysa verður haldið í húsnæði Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri, að Hjalteyrargötu 12 í dag kl. 14.
Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember minningu um fórnarlömb umferðarslysa. Í ár er dagurinn tileinkaður hættunni sem stafar af svefni og þreytu ökumanna.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri mun flytja ávarp og séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur Glerárprestakalls, verður með hugvekju. Að athöfn lokinni býður Slysavarnadeildin á Akureyri upp á léttar veitingar í tækjasal Súlna. Fulltrúar allra viðbragðsaðila á svæðinu verða á staðnum.
Alls 1.624 látist í umferðinni frá 1915
Frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915 hafa samtals 1.624 einstaklingar látist í umferðinni. Enn fleiri hafa slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.
Á hverju ári verða fjölmörg alvarleg slys, þar með talin banaslys, sem rakin eru beint til þess að ökumenn eru of þreyttir eða hreinlega sofna undir stýri. Okkur hættir til að ofmeta eigið úthald. Örsvefninn getur þá læðst að okkur án fyrirvara – þegar við þreytumst. Við akstur er þetta stórhættulegt ástand og ætlunin er að beina sjónum sérstaklega að því á minningaradeginum núna í ár.