Formlegar viðræður um mögulega sameiningu

Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. og Sparisjóðs Strandamanna hf. hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um mögulega sameiningu sjóðanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðunum.
„Leiði viðræðurnar til sameiningar sjóðanna verður til öflugur sparisjóður sem mun áfram styðja vel við einstaklinga og fyrirtæki á sínum starfssvæðum sem eru aðallega í Eyjafirði og á Ströndum, jafnframt því að sækja á nýja markaði. Fjárhagsstaða hvors sjóðs um sig er sterk, báðir sjóðirnir hafa góð eiginfjárhlutföll sem og góða lausafjárstöðu. Sameiningu sjóðanna er fyrst og fremst ætlað að hefja markaðssókn með stækkun efnahagsreikningsins,“ segir í tilkynningunni.
Aukið hlutafé frá KEA til vaxtar
Stærstu eigendur Sparisjóðs Höfðhverfinga eru KEA og Sænes (Grýtubakkahreppur) en eignarhald Sparisjóðs Strandamanna er dreift á fjölda einstaklinga. Hvor sjóður um sig er með yfir 130 ára samfellda rekstrarsögu, auk þess sem báðir sjóðirnir breyttu félagsformi sínu í hlutafélag á liðnu ári.
Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga fagnar í tilkynningunni þessu skrefi sjóðanna, sem eru minnstu sparisjóðirnir í dag en saman gætu þeir myndað sterkan grunn til vaxtar. Mikilvægt sé að stækka og efla sparisjóðina til þess að mæta sterkar inn á bankamarkaðinn og viðhalda eðlilegri flóru fyrirtækja á þessum markaði. „Við teljum góðan hljómgrunn í samfélaginu fyrir vexti sparisjóðanna, það sýna viðhorfskannanir sem við höfum látið gera. Vonandi verði þetta upphafið að frekari sameiningum eða stækkunum sparisjóðanna í heild sinni því þeir munu verða til framtíðar áhugaverður og öðruvísi valkostur fyrir fólk og fyrirtæki á bankamarkaði,“ segir Jóhann.
Víðir Álfgeir Sigurðarson, formaður stjórnar Sparisjóðs Strandamanna, segir að tækifæri séu í sameiningu sjóðanna, nauðsynlegt sé að þróa áfram og auka samstarfs sparisjóðanna með hagsmuni eigenda og samfélagsins sem þeir vaxa uppúr að leiðarljósi.
„Stórauknar kröfur um regluverk og eftirlitsumhverfi, þrátt fyrir smæð og einfaldan rekstur sjóðanna, er að gera rekstrarumhverfi þeirra flóknara. Áfram verður unnið að auknu samstarfi sparisjóða í gegnum Samband Íslenskra Sparisjóða. Vonir standa til að með sameiningu verði til öflugur sparisjóður með dreifðu eignarhaldi, sem styðji vel við nærsamfélagið og byggir áfram á þeirri hugmyndafræði sem sparisjóðirnar hafa alltaf staðið fyrir frá því þeir voru stofnaðir fyrir rúmlega 130 árum,“ er haft eftir Víði Álfgeiri í tilkynningunni.